„Við vorum of linir“

Ómar Örn Sævarsson
Ómar Örn Sævarsson mbl.is/Styrmir Kári

Framherjinn reyndi, Ómar Örn Sævarsson, var vonsvikinn yfir því hversu snemma Grindvíkingar brotnuðu gegn KR-ingum í Dominos-deildinni í kvöld. 

KR-ingar byggðu upp gott forskot strax í fyrsta leikhluta og litu ekki um öxl eftir það og sigruðu 87:62. Gangur leiksins kom nokkuð á óvart þar sem Grindavík hafði unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni. 

„Ég er hissa á andleysinu en held að KR-ingarnir séu bara miklu andlega sterkari en við akkúrat núna. Þeir tóku fast á okkur og ýttu okkur út úr okkar leikkerfum. Við fórum að leita að Kananum og spá í dómurunum í stað þess að leita inn á við. Í stað þess að gera eitthvað gáfulegt fórum við að leita að skyndilausnum til þess að bjarga okkur út úr þeim aðstæðum sem við vorum komnir í. Ég vonaðist til þess að við værum með breiðara bak en það að brotna svona snemma. Þarna sást kannski af hverju okkur var spáð 10. sæti en KR toppbaráttu,“ sagði Ómar Örn við mbl.is að leiknum loknum.

Ómar er engu að síður sáttur við 4 stig eftir þrjá leiki en eins og hann nefndi þá var Grindavík ekki spáð góðu gengi í árlegri spá forráðamanna félaganna. „Á heildina litið er ég mjög sáttur. Við höfum tekið nokkur skref upp á við eftir að hafa fengið Kanann okkar seint. Eftir sumarið þurftum við að hugsa hlutina aðeins upp á nýtt því þá voru nokkrir ungu strákanna í meiðslum. Við tókum nokkur skref fram á við í Þórsleiknum og fleiri skref fram á við í Haukaleiknum. Í kvöld var það ekki strúktúrinn sem brást okkur heldur vorum við bara of linir. KR er að spila úrslitakeppnisbolta á meðan við erum að spila haustmótsbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert