Stjarnan fagnaði þriðja sigrinum

Hlynur Bæringsson og félagar í Stjörnunni unnu Þór Akureyri og …
Hlynur Bæringsson og félagar í Stjörnunni unnu Þór Akureyri og ÍR í fyrstu leikjum sínum á tímabilinu. mbl.is/Eggert

Stjarnan vann Njarðvík í lokaleik 3. umferðar Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld, 94:83. Stjarnan hefur því unnið alla þrjá leiki sína til þessa en Njarðvík einn af þremur.

Njarðvík tapaði fyrir Keflavík, 88:82, í fyrsta leik tímabilsins en vann svo Snæfell í síðustu viku. Stjarnan vann Þór Akureyri eftir framlengingu og gegn ÍR í síðustu viku.

Stjarnan hóf leikinn í kvöld af miklum krafti og komst í 18:5 og 24:9. Njarðvík komst betur í gang með frábærri innkomu Stefan Bonneau auk þess sem hinn fertugi Páll Kristinsson átti góðan leik, og í 2. leikhluta tókst heimamönnum að komast yfir. Logi Gunnarsson skoraði 16 stig í þeim leikhluta en Stjarnan var 47:45 yfir í hálfleik.

Stjarnan byrjaði einnig af krafti í seinni hálfleik og virtist ætla að stinga af, en aftur átti Bonneau góða syrpu og hann minnkaði muninn í fjögur stig, 74:70, með annarri flautukörfu sinni í leiknum. Stjarnan hafði hins vegar öll tök á leiknum í lokafjórðungnum og landaði sigrinum.

Bonneau skoraði 28 stig á tæpum 23 mínútum og var gjörsamlega magnaður. Logi skoraði 23 stig. Hjá Stjörnunni voru hins vegar sex leikmenn með að minnsta kosti 13 stig. Justin Shouse og Devon Austin skoruðu 16 stig hvor, Hlynur Bæringsson og Tómas Heiðar Tómasson 15 stig hvor, og Arnþór Freyr Guðmundsson og Marvin Valdimarsson 13.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

----------------------------------------------

Njarðvík - Stjarnan, 83:94
(19:29 - 45:47 - 70:74 - 83:94)

40. Leik lokið. (83:94) Stjarnan landar sigrinum eins og útlit var fyrir á lokakaflanum. Stjörnumenn hafa því unnið fyrstu þrjá leiki sína en Njarðvík einn af þremur.

37. (79:90) Stjarnan er í góðri stöðu, ellefu stigum yfir eftir að Tómas Heiðar setti niður tvö vítaskot.

35. (79:85) Björn Kristjánsson setur niður þrist og minnkar muninn í sex stig fyrir Njarðvíkinga, eftir að Tómas Heiðar Tómasson hafði skömmu áður komið Stjörnunni tíu stigum yfir. Tómas kominn með 14 stig í kvöld og Björn 13.

30. Leikhluta 3 lokið. (70:74) Ja, hérna hér. Stefan Bonneau með annan flautuþrist sinn í leiknum, af löngu færi, og hann minnkar muninn í fjögur stig, 74:70. Bonneau er kominn með 26 stig á rúmum 15 mínútum.

30. (67:73) Jóhann Árni Ólafsson minnkaði muninn í sex stig með fyrstu fjórum stigum sínum í leiknum, í sömu sókninni. Gamla brýnið Páll Kristinsson vann svo boltann í vörninni fyrir Njarðvíkinga.

26. (52:65) Hlynur varði skot Björns Kristjánssonar með tilþrifum og Marvin Valdimarsson setti niður skot í kjölfarið. Stjarnan með 13 stiga forskot.

23. (47:59) Snjólfur Marel Stefánsson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og Stjörnumenn þökkuðu fyrir sig með fimm stigum. Munurinn er allt í einu kominn í 12 stig, 59:47.

20. Hálfleikur. (45:47) Stjarnan var mikið betri í 1. leikhluta en heimamenn svöruðu heldur betur fyrir sig í 2. leikhluta og nú er útlit fyrir spennandi leik. Stjarnan skoraði fjögur síðustu stig hálfleiksins og er yfir. Stefan Bonneau er kominn með 16 stig fyrir Njarðvíkinga. Devon Austin er stigahæstur hjá Stjörnunni með 12 stig.

19. (45:43) Logi kemur Njarðvíkingum yfir í fyrsta sinn í leiknum. Sjóðheitur í 2. leikhluta og kominn með 14 stig eftir að hafa ekkert skorað í 1. hluta.

17. (36:41) Justin Shouse var að skora sín fyrstu stig með einkar laglegum hætti og auka muninn í fimm stig fyrir Stjörnuna. Daníel Guðni tekur leikhlé fyrir Njarðvík, að hluta til til þess að leyfa sínum mönnum að anda aðeins.

15. (34:37) Logi Gunnarsson með þrist fyrir Njarðvík og munurinn er kominn niður í aðeins þrjú stig.

12. (29:34) Bonneau heldur áfram að fara á kostum! Stjarnan tekur leikhlé eftir að Logi Gunnarsson vann boltann og kom honum á Bonneau sem setti niður þrist og er kominn með 16 stig.

10. Leikhluta 1 lokið. (19:29) Stefan Bonneau átti góða innkomu í Njarðvíkur-liðið og skoraði átta stig á skömmum tíma, þar af úr mögnuðu þriggja stiga skoti frá miðju í þann mund sem leikhlutanum lauk. Þetta gæti gefið Njarðvík einhvern kraft.

7. (7:21) Hlynur Bæringsson með körfu og víti að auki, eftir baráttu við Corbin Jackson undir körfunni.

4. (2:13) Stjörnumenn miklu grimmari í upphafi leiks og Daníel Guðni Guðmundsson tekur leikhlé.

3. (0:9) Stjarnan byrjar leikinn á þremur þristum! Arnþór Freyr Guðmundsson með tvo þeirra.

1. Leikur hafinn! Njarðvík vinnur uppkastið og hefur sókn.

0. Þessi lið mættust í 8-liða úrslitum síðasta vor þar sem Njarðvík hafði betur í oddaleik, 79:75. Allir fimm leikir einvígisins unnust á útivelli. Njarðvík hafði einnig betur gegn Stjörnunni í oddaleik í 8-liða úrslitum 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert