Tindastóll valtaði yfir Njarðvíkinga

Björgvin Hafþór Ríkharðsson fór á kostum með Tindastóli og skoraði …
Björgvin Hafþór Ríkharðsson fór á kostum með Tindastóli og skoraði 24 stig í stórsigri á Njarðvík. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tindastóll vann gríðarlega öruggan sigur þegar Njarðvík kom í heimsókn í fjórðu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik. Í Borgarnesi lögðu ÍR-ingar svo nýliða Skallagríms.

Á Króknum var bara eitt lið á vellinum framan af, en eftir fyrsta leikhluta var staðan 25:9 fyrir Tindastól og Njarðvíkinga á hælunum. Stólarnir létu kné fylgja kviði og voru yfir í hálfleik, 51:28. Munurinn var 36 stig fyrir fjórða leikhluta, þar sem heimamenn leyfðu sér aðeins að hægja á enda kom það ekki að sök.

Lokatölur urðu 100:72 fyrir Tindastól, þar sem Mamadou Samb var stigahæstur með 29 stig auk þess sem hann tók 13 fráköst. Hjá Njarðvík skoraði Corbin Jakcson 15 stig eins og Stefan Bonneau sem kom af bekknum. Tindastóll er með sex stig eftir fjóra leiki en Njarðvík er með tvö stig.

Í Borgarnesi fór svo ÍR með sigur af hólmi gegn Skallagrími, 84:78. Jafnræði var með liðunum framan og fimm stig skildu að í hálfleik. ÍR-ingar náðu frumkvæðinu betur eftir hlé án þess þó að hrista heimamenn af sér, en áhlaup Borgnesinga kom of seint í lokin.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Tindastóll – Njarðvík 25:9 - 51:28 - 79:43 - 100:72.
Skallagrímur – ÍR 17:17 - 36:41 - 55:67 - 78:84.

20.57 Leik lokið í Borgarnesi. Skallagrímur – ÍR 78:84. ÍR-ingar stóðust áhlaup Skallagríms í lokin. Hunter með 26 fyrir þá og Whitfield með 25 fyrir Skallana.

20.47 Leik lokið á Króknum. Tindastóll - Njarðvík 100:72. Sigur heimamanna ekki í hættu frá fyrstu mínútu.

20.39

Tindastóll – Njarðvík 90:65. Fjórar mínútur eftir á Króknum. Samb er kominn með 29 stig fyrir þá en hjá Njarðvík er Stefan Bonneau að stíga upp og er orðinn stigahæstur með 15 stig.

Skallagrímur – ÍR 64:80. Í Borgarnesi eru ÍR-ingar enn með yfirhöndina og úrslitin þar nánast ráðin.

20.32 Þriðja leikhluta lokið.

Tindastóll – Njarðvík 79:43. Stólarnir hleypa gestunum ekki einu sinni nálægt sér og fyrir fjórða og síðasta leikhluta munar 36 stigum á liðunum, takk fyrir. Samb enn stigahæstur hjá Stólunum, með 25 stig, en Jackson er með 11 hjá Njarðvík.

Skallagrímur – ÍR 55:67. ÍR er enn með yfirhöndina á meðan heimamenn reyna að ná þeim, en eru á hælunum. Hunter er með 20 stig fyrir ÍR en Whitfield með 23 fyrir Skallagrím.

20.16 

Tindastóll – Njarðvík 65:34. Stólarnir halda uppteknum hætti eftir hlé. Samb er með kominn með 25 stig fyrir þá.

Skallagrímur – ÍR 36:51. ÍR skorar tíu fyrstu stig þriðja leikhluta og staða þeirra batnar enn.

20.01 Hálfleikur í Borgarnesi. Skallagrímur – ÍR 36:41. Aftur hefur leikurinn jafnast en ÍR er með fimm stiga forskot í hálfleik. Matthew Hunter er stigahæstur þeirra með fimmtán stig. Flenard Whitfield er með 19 stig og 10 fráköst hjá Sköllunum.

19.57 Hálfleikur á Króknum. Tindastóll – Njarðvík 51:28. Njarðvík hefur skorað 9 og 19 stig í leikhlutunum tveimur. Munurinn 23 stig í hálfleik þar sem heimamenn leika á als oddi. Samb er kominn með heil nítján stig fyrir þá en næstur kemur Björgvin Hafþór með átta stig. Hjá Njarðvík er Corbin Jackson með átta og Logi Gunnars sjö.

19.45 

Tindastóll – Njarðvík 39:18. Annar leikhluti hálfnaður og yfirburðir Tindastól halda áfram. Njarðvíkingar virðast ekki hafa átt von á þessu. Samb er með þrettán stig en hjá Njarðvík er Corbin Jackson með átta stig.

Skallagrímur – ÍR 19:29. Allt í einu orðinn tíu stiga munur. Hákon og Daði setja báðir þrista fyrir ÍR. Fjórar mínútur liðnar af öðrum leikhluta.

19.36. Fyrsta leikhluta lokið

Tindastóll – Njarðvík 25:9. Þvílíkur fyrsti leikhluti hjá heimamönnum á meðan Njarðvíkingar eru vart vaknaðir. mamadou Samb er með átta stig hjá þeim.

Skallagrímur – ÍR 17:17. Mikið jafnræði í Borgarnesi. Whitfield er með ellefu stig og sex fráköst fyrir Skallana í leikhlutanum.

19.24 Skallagrímur – ÍR 11:2. Nýliðarnir byrja vel gegn ÍR. Flenard Whitfield með sex stig fyrir þá.

19.24 Tindastóll – Njarðvík 17:5. Heldur betur góð byrjun hjá Stólunum. Pétur Rúnar hefur skorað sjö stig þeirra. Logi Gunnars setti þrist fyrir Njarðvík eftir að staðan var orðin 12:2.

19.16 Leikirnir eru hafnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert