„Skammarlegt hvernig við komum inn í leikinn”

Hrafn Kristjánsson.
Hrafn Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar í Dominos-deild karla í körfuknattleik, var kátur eftir öruggan 99:82 sigur sinna manna á Keflavík, í Ásgarði í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Stjarnan enn með fullt hús stiga

„Ég er sáttur með sigurinn og þá sérstaklega seinni hálfleikinn. Það var pínu skammarlegt hvernig við komum inn í leikinn. Við vorum að spila við Keflavík og þeir taka alltaf vel á því og láta menn hafa fyrir hlutunum og því er alls ekki ásættanlegt að vera með enga liðsvillu og tíu tapaða bolta eftir fyrsta leikhluta. Það bendir bara til þess að menn hafi ekki verið andlega klárir. En við stigum vel upp í seinni hálfleik og spiluðum mjög vel,” sagði Hrafn í viðtali við mbl.is eftir leik.

Vendipunktur leiksins varð undir lok fyrri hálfleiks, þegar Keflvíkingurinn Reggie Dupree, kastaði höfuðbandi Stjörnumannsins Justin Shouse, upp í áhorfendastúkuna. Fyrir vikið var Dupree rekinn úr húsi, en á þessum tímapunkti var leikurinn í járnum og Dupree stigahæsti leikmaður gestanna.

„Mér fannst þetta frábær dómur. Það var búið að dæma á hann tæknivillu fyrir að taka höfuðbandið af Shouse og ég veit ekki hvað hann bjóst við að gerðist, þegar hann kastaði því síðan upp í áhorfendastúkuna. Þetta var bara hárréttur dómur,” sagði Hrafn um atvikið dramatíska.

Stjörnumenn unnu í kvöld sinn fjórða sigur og eru því með fullt hús stiga, að loknum fjórum umferðum. Góð stígandi hefur verið á leik Stjörnuliðsins, sem virkaði frekar ryðgað í fyrstu leikjum mótsins. Þá virðist sem Bandaríkjamaðurinn Devon Andre Austin aðlagist vel, en hann átti mjög góðan leik í kvöld, þá sérstaklega í seinni hálfleik.

„Það er klárlega stígandi í okkar leik. Devon er líka á áætlun. Ég get ekki séð hvernig það gagnast liðinu mínu að Bandaríkjamaðurinn minn sé með 30 stig í leik, í upphafi mótsins. Hann hefur klárlega mikla hæfileika og hann á bara eftir að verða betri og betri, sem og allt liðið,” sagði Hrafn að lokum, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert