Þórsarar á skriði en Snæfell án stiga

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór Þorlákshöfn vann sinn þriðja leik í röð í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar botnlið Snæfells kom í heimsókn. Þórsarar unnu öruggan sigur, 110:85, og skildu gestina eftir án stiga á botninum.

Þórsarar voru með yfirhöndina allan tímann án þess þó að ná að hrista gestina af sér. Staðan var 54:42 í hálfleik, en eftir hlé fór að skilja á milli og að lokum munaði 25 stigum á liðunum. Sefton Barrett var allt í öllu hjá Snæfelli, skoraði 35 stig og tók 15 fráköst, en það dugði ekki til. Tobin Carberry var stigahæstur Þórsara með 21 stig og 8 fráköst.

Þór hefur því unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum og er með sex stig, en Snæfell er eitt liða án stiga.

40. Leik lokið. Lokatölur 110:85.

35. Staðan er 96:76. Tuttugu stiga munur og úrslitin ráðin. Barrett er einn með lífsmarki hjá Snæfelli, hefur skorað 35 stig og tekið 12 fráköst. Tobin Carberry er með 17 stig og 7 fráköst hjá Þórsurum.

30. Þriðja leikhluta lokið. Staðan er 87:61. Þórsarar halda áfram að breikka bilið.

24. Staðan er 64:47. Bilið er að breikka hér í upphafi þriðja leikhluta. Barrett er langbestur hjá Snæfelli með 28 stig, næstur kemur Viktor Marinó með 6 stig. Augljóst að slíkt gengur einfaldlega ekki upp. Hjá Þórsurum eru níu menn komnir á blað af þeim tólf sem eru á skýrslu.

20. Hálfleikur. Staðan er 54:42. Enn eru Snæfellingar að elta en þeir láta ekki fara illa með sig og eru í humátt á eftir heimamönnum. Sefton Barrett er með 23 stig og 9 fráköst hjá þeim en hjá Þórsurum er Tobin Carberry stigahæstur með 11 stig.

15. Staðan er 40:33. Þórsarar eru með yfirhöndina en ekki mikið meira en það. Barrett er að fara á kostum hjá Snæfelli með 23 stig af 33 stigum þeirra, takk fyrir.

10. Fyrsta leikhluta lokið. Staðan er 29:20. Snæfellingar eru ekki af baki dottnir, en Sefton Barrett hefur farið fyrir þeim með tólf stigum. Maciej Stanislav er með sjö fyrir Þórsara.

5. Staðan er 19:8. Heimamenn byrja þetta af miklum krafti og ljóst að botnliðið mun þurfa að elta ef þetta heldur áfram svona.

1. Leikurinn er hafinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert