Svona frammistaða dugar ekki í mars

Hlynur Bæringsson var stigahæstur hjá Stjörnunni með 19 stig þegar …
Hlynur Bæringsson var stigahæstur hjá Stjörnunni með 19 stig þegar liðið lagði Grindavík að velli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við spila vel á köflum, en eins og áður í vetur þá náum við ekki að spila heilan góðan leik og þetta varð að hörkuleik. Við byrjuðum leikinn vel og hefðum hæglega getað gert út um leikinn mikið fyrr,“ sagði Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 75:64 sigur liðsins gegn Grindavík í níundu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

„Við náðum upp góðu forskoti með góðri vörn og liðssamvinnu í sókninni, en þegar við vorum komnir með gott forskot þá fórum við að slaka á í vörninni og leikmenn fóru að gera erfiða hluti upp á eigin spýtur,“ sagði Hlynur sem var stigahæsti leikmaður Stjörnunnar með 19 stig um spilamennsku liðsins í leiknum.

„Ég er svona hæfilega sáttur við spilamennsku okkar í vetur. Það er hins vegar enn þá of auðvelt að koma okkur út úr þeim leikstíl sem við viljum spila. Við höfum ekki náð að sýna frammistöðu sem myndi duga þegar á hólminn er komið og allt er undir. Það pirrar mig líka að við séum ekki með í bikarkeppninni,“ sagði Hlynur um frammistöðu Stjörnunnar í þessum leik og heilt yfir í vetur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert