Alltaf gaman þegar vel gengur - hræðilegur leikur

Pétur Rúnar Birgisson var í stóru hlutverki hjá Tindastóli.
Pétur Rúnar Birgisson var í stóru hlutverki hjá Tindastóli. mbl.is/Golli

Pétur Rúnar Birgisson leikmaður Tindastóls var ánægður með frammistöðu liðsins í gærkvöld þegar það vann öruggan sigur á Skallagrími, 97:75, í Dominos-deild karla í körfuknattleik á Sauðárkróki.

„Þetta var bara skemmtilegur og góður leikur, það er alltaf gaman þegar  vel gengur og ég er býsna ánægður með hvernig liðið kemur út í  heildina. Við erum allir að spila vel hver fyrir annan, vörnin er að  þéttast og eflast og skotnýtingin er góð. Antonio Hester virðist smellpassa í liðsheildina og er feykilega öflugur, sagði Pétur við mbl.is.

Finnur Jónsson þjálfari Skallagríms sagði að þetta hefði verið erfiður dagur fyrir sitt liðs.

Eftir fínan nóvembermánuð  þá var þetta erfiður dagur í dag.  Við  misstum þá frá okkur strax í byrjun, og það er alltaf hrikalega erfitt  að koma til baka og þurfa alltaf að elta, þeir komust í 12:0 þegar við  náðum loksins að komast á blað.  Það munaði tvisvar litlu að við næðum niður þessu forskoti, en þá kom bara önnur árás frá þeim þannig að við  vorum alltaf á eftir.  En við skulum heldur ekki gleyma því að  Tindastólsliðið er þrusu gott, mikil breidd og raunar hvergi veikur  hlekkur hvorki í vörn né sókn," sagði Finnur.

Sigtryggur Arnar Björnsson leikmaður Skallagríms var afar ósáttur við frammistöðu Borgnesinga.

„Þetta var einfaldlega hræðilegur leikur, við bara mættum ekki á svæðið  og voru alls ekki tilbúnir í þennan leik.  Við svo sem vissum það að  Tindastólsliðið er mjög gott og þeirra heimavöllur er einn sá  erfiðasti að heimsækja.  En nú er þessi leikur að baki og það er svo  bikarleikur á mánudag og við vinnum hann bara og fáum svo Tindastól í  bikar heima og þá getum við jafnað þetta, sagði Sigtryggur Arnar hress  í bragði um leið og hann yfirgaf húsið.

Kári Marísson fyrrverandi þjálfari Tindastóls sagði að liðsheild Sauðkrækinga væri gífurlega sterk.

„Þetta var sigur liðsheildarinnar. Pétur Rúnar er að sýna það sífellt betur og betur hversu gríðarlega öflugur leikmaður hann er,  sérstaklega kom þetta vel í ljós, meðan verið var að ná tökum á  leiknum.  Og hafi þessi leikur verið uppgjör milli leikstjórnendanna,  þá hafði Pétur þar tögl og hagldir og Sigtryggur Arnar Björnsson sem  verið hefur að spila gríðarlega vel fyrir Borgnesinga fékk ekki rönd  við reist. Hjá Tindastóli er vörnin að þéttast og verða öflugri og  sóknarleikurinn kemur mikið betur út vegna þess að hann er svo  fjölbreyttur.  Þá eiga strákarnir heilmikið inni bæði Hannes og  Friðrik Þór og svo væntanlega styttist í að Viðar komi aftur inn."

Magnús Þór Gunnarsson, hinn reyndi leikmaður Borgnesinga, sagði að þeir hefðu hreinlega verið slegnir í gólfið.

„Við komum aldeilis ekki undirbúnir í þennan leik og það þýðir ekki.  Okkur hefur gengið vel að undanförnu, fjórir leikir unnir með  bikarleik, en við vorum nú heldur betur slegnir í gólfið í kvöld. En  það þýðir ekkert að vera að væla yfir því við gírum okkur bara upp í  bikarleikinn á mánudaginn og svo sjáum við til hvert framhaldið verður," sagði Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert