Grindavík mikið betri en staðan segir til um

Sverrir Þór Sverrisson gerði Grindavík að bikarmeistara árið 2015.
Sverrir Þór Sverrisson gerði Grindavík að bikarmeistara árið 2015. mbl.is/Ómar

„Við fáum erfiðan leik í Grindavík. Grindavík er mikið betra lið en staðan í deildinni segir til um, það vita allir,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, en liðið mætir Grindavík í grannaslag í 8-liða úrslitum Malt-bikars kvenna í janúar. Dregið var í dag.

Frétt mbl.is: Snæfell mætir Stjörnunni - KR á Egilsstaði

„Það eru hörkustelpur þarna í Grindavík og þær hafa verið svolítið bikarlið, eins og ég þekki vel,“ sagði Sverrir, en hann gerði Grindavík að bikarmeistara árið 2015. „Þetta er stórt verkefni, við höfum verið í fullt af slíkum verkefnum í vetur og það heldur bara áfram,“ sagði Sverrir. Hann segir það ekkert óvenjulegt fyrir sig að mæta liðinu sem hann gerði að bikarmeistara:

„Nei, nei. Ég var bara með kvennaliðið þarna í eitt ár og maður hefur fært sig mikið þarna á milli bæði sem leikmaður og þjálfari. Þetta er bara verkefni sem maður fer og gefur sig allan í, og vonast eftir að uppskera.“

Sverrir er með ungt lið Keflavíkur á toppi Dominos-deildarinnar, á meðan Grindavík er í næstneðsta sæti, og Keflavík vann örugga sigra í báðum innbyrðis viðureignum liðanna til þessa í vetur.

„Það býr meira í þessu Grindavíkurliði og þær áttu nú góðan leik gegn Njarðvík um daginn. Ég býst ekki við að Grindavík verði eins og síðast þegar við spiluðum við þær. Við vitum að þetta verður erfiðara og að bæði liðin verða komin lengra í sínum leik þegar þau mætast í þessum bikarleik,“ sagði Sverrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert