Stórt hlutverk Kristins

Kristinn Pálsson (13) í leik með Marist.
Kristinn Pálsson (13) í leik með Marist. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Kristinn Pálsson þykir vera einn af efnilegustu körfuknattleiksmönnum landsins af þeim sem vel þekkja til. Þó eru líklega frekar fáir íþróttaáhugamenn hér heima sem hafa séð hann spila nema í yngri flokkunum. Kristinn er að hefja sinn fjórða vetur erlendis þótt hann sé einungis 19 ára gamall.

Kristinn er á öðru ári hjá Marist-háskólanum í Bandaríkjunum en var þar áður í tvo vetur á Ítalíu. Þar varð hann ítalskur meistari í flokki 19 ára og yngri með Stella Azzura. Kristinn var í stóru hlutverki síðasta sumar hjá U-20 ára landsliðinu sem vann sig upp í efstu deild á EM.

Morgunblaðið tók púlsinn á Kristni, sem lætur vel af sér hjá Marist. Hann segist vera mjög ánægður með hlutverk sitt í liðinu enda fékk hann mikið að spila strax á fyrsta ári síðasta vetur og var þá byrjunarliðsmaður.

Mikill metnaður

„Árgangurinn minn var sá fyrsti sem þjálfari liðsins náði í fyrir skólann. Hann hefur því metnað fyrir því að búa til gott lið úr árganginum. Þjálfarinn hefur sagt að markmiðið sé að vinna okkar riðil og komast í úrslitakeppni NCAA áður en minn árgangur útskrifast. Metnaðurinn er mikill,“ sagði Kristinn, sem segist oftast spila aðra hvora framherjastöðuna. Fyrir hafi þó komið að hann spili sem bakvörður, en Kristinn er tæplega tveir metrar á hæð.

„Ég tel mig vera góðan skotmann og það getur nýst liðinu. Þjálfarinn segist vera ánægður með mig og segir að ástríða mín fyrir íþróttinni smiti út frá sér á vellinum.“

Nánar er fjallað um Kristin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert