Yrði óvænt og skemmtilegt fyrir okkur

Ágúst Björgvinsson
Ágúst Björgvinsson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er alveg möguleiki fyrir okkur, en Haukarnir eru með mjög gott lið. Eftir að hafa fengið tvo leiki við úrvalsdeildarlið hefði alveg verið allt í lagi að fá 1. deildar lið, svona þegar við erum einum leik frá Höllinni. En það er allt opið hjá okkur,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari 1. deildar liðs Vals, eftir að liðið dróst gegn Haukum í 8-liða úrslitum Maltbikars karla í körfubolta.

Dregið var til 8-liða úrslita í Maltbikar karla og kvenna í gær. Sigurliðin komast í Laugardalshöll þar sem úrslitahelgi bikarsins verður leikin í febrúar, með svokölluðu Final Four-sniði sem er nýbreytni í körfuboltanum.

Einsdæmi að slá út tvö?

Þrjú 1. deildar lið eru enn með í Maltbikar karla og er eini úrvalsdeildarslagurinn í 8-liða úrslitum á milli Þórs Akureyri og Grindavíkur. Ástæðan fyrir þessu er að hluta til framganga lærisveina Ágústs í Valsliðinu, sem rutt hefur tveimur úrvalsdeildarliðum úr vegi, Skallagrími og Snæfelli. Fróðir menn telja að það gæti verið einsdæmi að 1. deildar lið slái tvö úrvalsdeildarlið út úr bikarnum. Ágúst má því vera stoltur af sínum mönnum:

„Það er alltaf smáheppni sem fylgir þessu líka. Við fengum heimaleik gegn Skallagrími og Snæfelli, og það er klárt mál að það hentar betur að spila gegn þessum liðum á heimavelli. En leikurinn, sérstaklega gegn Skallagrími, var auðvitað góður hjá okkur. Það er ekki eins og að Skallagrímsmenn hafi átt einhvern „off“ dag. Þeirra lykilmenn voru allir að skora 20 stig eða meira. Við spiluðum bara mjög vel.“

Verðum pressulausir

Sigur á Haukum myndi skila Valsliðinu í Laugardalshöll en þá þyrfti væntanlega allt að ganga upp þegar liðin mætast um miðjan janúar:

„Við komum pressulausir inn í þennan leik en það er langt síðan Haukar komust í Höllina. Það sama á reyndar við um okkur en Haukarnir eru klárlega stóra liðið í þessu einvígi, lið sem spilaði til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor, og þeir eru með hörkugott lið. Það er mjög mikið í húfi fyrir Hauka og það yrði bæði óvænt og mjög skemmtilegt fyrir okkur að komast áfram,“ sagði Ágúst.

Nánar um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert