„Þetta var lélegt“

Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur.
Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur. Eggert Jóhannesson

Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga, var vissulega svekktur eftir 92:73 tap gegn ÍR í Dominos-deild karla í kvöld.

Njarðvíkingar voru undir allan leikinn og var frammistaðan mjög slök. Daníel hafði lítið um frammistöðuna að segja eftir leik.

„Ég hef lítið að segja um hana. Þetta var lélegt og sérstaklega varnarlega. Ef við stoppum aldrei fáum við aldrei auðveldar körfur og þetta var bara lélegt."

„Þú ert aldrei betri en síðasta frammistaða sem þú sýndir og við erum ekki betri en þetta núna og við þurfum að taka til hjá okkur og vinna í því.“

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en svo ekki söguna meir. ÍR náði fljótlega tíu stiga forskoti sem Njarðvík náði aldrei að ógna.

„Þá tókst ágætlega til að byrja með og sóknarleikurinn var allt í lagi en eftir fimm mínútur þá fór þetta. Ég er ánægður með að halda þeim í 17 stigum í 1. leikhluta en við skorum bara 11 og það er erfitt að vinna leiki ef þú færð á þig 29 stig í 2. og 3. fjórðungi.“

„Við fengum ekki opin svæði til að vinna með. Við vorum að reyna að klára sóknirnar snemma í staðinn fyrir að halda áfram. Þeir voru að skipta mikið og við náðum ekki að nýta okkur það. Við eigum að vera þokkalega góðir í því en við vorum það ekki í kvöld.“

Njarðvík vann KR-inga á dögunum en KR er eitt allra besta lið landsins. Daníel segir það augljóst að það vanti stöðugleika í lið sitt.

„Það er enginn stöðuleiki að vinna eitt besta lið landsins og tapa síðan gegn liði um miðja deild með 20 stigum, það er of mikið og þetta var lélegt,“ sagði Daníel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert