„Verðum að vernda heimilið okkar“

Quincy Hankings-Cole var öflugur með ÍR-ingum í kvöld.
Quincy Hankings-Cole var öflugur með ÍR-ingum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ánægður að sjá okkur spila svona vel allan leikinn. Í síðustu tveimur leikjum höfum við spilað þrjá leikhluta vel og svo höfum við dottið niður undir lokin. Í dag héldum við áfram allan leikinn. Vörnin okkar var nokkið góð í dag og það var góð tilfinning að ná að taka þetta mikilvæga skref í deildinni,“ sagði Quincy Hankings-Cole, leikmaður ÍR, eftir 92:73 sigur á Njarðvík í Seljaskóla í kvöld.

Sigur ÍR-inga var öruggur og sá Njarðvík aldrei til sólar.

„Við reynum að gera þetta á heimavelli. Við verðum að vernda heimilið okkar. Við verðum að stýra tempóinu og ekki leyfa þeim að komast af stað.“

Cole er búinn að leika þrjá leiki með ÍR en hann var í röðum Snæfells fyrir nokkrum árum en hann hefur m.a leikið í Ástralíu og Finnlandi áður en hann sneri aftur til Íslands.

„Þetta er allt öðruvísi en það var fyrir fimm árum síðan. Þetta er betra og það er meiri samkeppni og leikirnir eru harðari. Þetta er búið að vera gott hingað til og ég hlakka til að spila restina á tímabilinu.“

Mikil samskipti áttu sér stað á milli Cole og stuðningsmanna ÍR sem kunna mikið að meta nýja leikmanninn sinn. Þeir sungu nafnið hans hástöfum meðan á leik stóð. Cole viðurkennir þó að hann kunni ekki textann sem þeir syngja um hann.

„Ég elska stuðningsmennina okkar. Þegar þeir komast af stað þá erum við óstöðvandi.“

„Ég verð að fá einhvern til að kenna mér textann,“ sagði hann léttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert