„Liðið sem ég spái Íslandsmeistaratitlinum“

Ágúst Sigurður Björgvinsson.
Ágúst Sigurður Björgvinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ágúst Björgvinsson, þjálfari karlaliðs Vals, var sposkur eftir að lið hans dróst á móti Íslands- og bikarmeisturum KR í undanúrslitum Maltbikarsins í körfuknattleik. 

„KR-ingar eru ótrúlega vel mannaðir og raunar best mannaða lið landsins. Þetta er liðið sem ég spái Íslandsmeistaratitlinum en ég ætla ekki að spá þeim bikarmeistaratitlinum strax,“ sagði Ágúst og glotti. 

„Það er virkilega gaman að fá tækifæri til að reyna sig við það lið. Við mættum þeim í Reykjavíkurmótinu í haust en það er bara allt annað en að spila leik sem skiptir mjög miklu máli. Auðvitað er mikil pressa á KR-ingunum og krafan í Vesturbænum er að þeir vinni. Við ætlum að stríða þeim,“ sagði Ágúst enn fremur en Valur hefur nú þegar slegið út þrjú úrvalsdeildarlið í keppninni: Snæfell, Skallagrím og Hauka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert