„Viljum vera á toppnum“

Erna Hákonardóttir
Erna Hákonardóttir Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Ernu Hákonardóttur, leikmanni Keflavíkur, líst vel á að mæta Haukum í undanúrslitum Maltbikars kvenna í körfuknattleik en dregið var í dag. 

„Ég held bara að þær henti okkur ágætlega. Við höfum mætt þeim tvisvar í deildinni og unnið í bæði skiptin en síðan þá hafa þær reyndar fengið nýjan Kana. Við höfum ekki mætt þeim eftir það og verður gaman að sjá hvernig það kemur út. Maður vill alltaf komast í úrslit og við munum auðvitað gera allt sem við getum til að vinna Hauka og komast alla leið í úrslitaleikinn,“ sagði Erna þegar mbl.is spjallaði við hana á blaðamannafundi í dag. 

Keflavík teflir fram ungu liði í vetur, rétt eins og í fyrra. Liðið hefur komið mörgum á óvart og er í baráttunni um efsta sætið í deildinni. „Við sjálfar höfðum trú á því að við gætum komið sterkar inn í tímabilið en ég held að enginn annar hafi átt von á því að við yrðum á toppnum. En við viljum vera þar,“ sagði Erna og var ánægð með sigurinn í 8 liða úrslitum bikarsins því hann kom í kjölfarið á tveimur tapleikjum í deildinni en þar eru Keflavík og Skallagrímur efst með jafnmörg stig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert