Annað tap Stjörnunnar í röð

Stjörnumaðurinn Hlynur Bæringsson með boltann gegn Myron Dempsey í kvöld.
Stjörnumaðurinn Hlynur Bæringsson með boltann gegn Myron Dempsey í kvöld. mbl.is/Golli

Njarðvíkingar gerðu sér lítið fyrir og unnu topplið Stjörnunnar í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld, 74:72. 

Gestirnir úr Njarðvík byrjuðu vel og komust í 11:6 snemma leiks. Sóknarleikur Stjörnunnar var stirður í upphafi en batnaði eftir því sem leið á 1. leikhlutann. Þegar leikhlutinn var hálfnaður voru Stjörnumenn komnir í 17:11. Njarðvíkingar skoruðu hins vegar fjögur síðustu stig leikhlutans og var staðan því 17:15, Stjörnunni í vil, þegar fyrsti fjórðungur var allur og stefndi í hörkuleik.

Það voru svo gestirnir úr Njarðvík sem sáu um að vera með tveggja stiga forskot í hálfleik eftir rosalegan 2. leikhluta. Minnstu munaði að syði upp úr, oftar en einu sinni og þá aðallega vegna ákvörðunartöku dómara leiksins og var hitinn í mönnum mikill. Hvorugt liðið var sátt við frammistöður þeirra og heyrðust mótmæli beggja liða hátt. Eins og við var að búast fengu þeir tæknivillur að launum og ekki minnkaði hávaðinn þá.

Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og unnu þeir fyrstu fimm mínútur hans, 14:6, og komust með því í 49:43 forystu. Þá tók Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga leikhlé sem virtist hafa býsna góð áhrif á lærisveina hans, því nokkrum mínútum síðar voru Njarðvíkingar komnir með forystu, 54:57, og þannig var staðan þegar síðasti leikhlutinn fór í gang.

Spennan hélt áfram allt til loka og gat sigurinn dottið báðum megin. Í lokin virtust taugar leikmanna Njarðvíkur ráða betur við spennuna og er sætur sigur þeirra því staðreynd.

Fylgst var með gangi mála á mbl.is

40. Leik lokið. 72:74 Eftir æsispennandi lokamínútur eru það Njarðvíkingar sem vinna. Virkilega skemmtilegur leikur. 

35. Staðan er 61:66. Njarðvíkingar eru með fimm stiga forystu. Fáum við óvænt úrslit í kvöld? Stjarnan hefur fimm mínútur til að snúa þessu við. Lið sem eru í þessari toppbaráttu verða einfaldlega að vinna svona leiki á heimavelli. 

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 54:57. Njarðvíkingar eru að sjálfsögðu ekki á þeim buxunum að gefast upp, þó að á móti blási. Þeir kláruðu 3. leikhluta með krafti og eru þeir með þriggja stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann. 

25. Staðan er 49:43. Stjarnan hefur farið betur af stað í seinni hálfleik og unnið fyrstu fimm mínútur hans, 14:6. Anthony Odunsi var búinn að hafa hægt um sig, þangað til hann skoraði sex stig í röð og er hann skyndilega næststigahæstur Stjörnumanna með tíu stig. 

Hálfleikur, staðan er 35:37. Njarðvík er með tveggja stiga forskot í hálfleik. Gríðarlega mikil barátta í leiknum og það er hiti í mönnum. Svoleiðis viljum við hafa það. Logi er með 16 stig fyrir Njarðvík og Hlynur Bæringsson er með 12 fyrir Stjörnuna. 

17. Staðan er 26:30. Það er allt að verða vitlaust hérna. Hlynur Bæringsson sópaði boltanum af körfunni og það löglega en dómarar leiksins dæmdu körfu. Stjörnumenn voru eðlilega allt annað en sáttir við það og létu þeir dóma leiksins heyra það hressilega. Það endaði með að Hlynur fékk tæknivillu. Stuttu síðar fengu Njarðvíkingar vítaskot sem Logi Gunnars setti ofan í, hann átti hins vegar ekki að taka vítið og var því dæmd tæknivilla á hann. Njarðvíkingar eru núna orðnir brjálaðir. Dómaranir ekki með mikla stjórn á leiknum sem stendur. 

15. Staðan er 24:26. Það er ljóst að Njarðvíkingar ætla að selja sig dýrt í kvöld. Liðin eru hvort á sínum enda deildarinnar en það stefnir í hörkuleik. Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson er stigahæstur allra með 11 stig.  

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 17:15. Mjög góð byrjun á þessum leik. Það er hiti í mönnum og hart barist og að sjálfsögðu skemmir ekki fyrir að leikurinn er jafn og spennandi, þótt lítið hafi verið skorað. 

5. Staðan er 4:7. Leikurinn fer rólega af stað í stigaskori og þá sérstaklega hjá Stjörnunni. Fjögur stig á fimm mínútum er ekki merkilegt. 

3. Staðan er 4:2. Gríðarlega mikil barátta sem einkennir leikinn hér í upphafi. Hlynur Bærings fer vel af stað og er með fyrstu fjögur stig Stjörnunnar. 

1. Leikurinn er hafinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert