Tókst en var erfitt

Svavar Atli Birgisson.
Svavar Atli Birgisson. Ljósmynd/Hjalti Arnarson

Hannes Ingi Másson, leikmaður Tindastóls, segir að sigur liðsins á ÍR, 84:78, í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld hafi ekki verið auðveldur.

Sjá frétt mbl.is: Tindastóll á sigurbraut á ný

„Þetta var nú ekkert spes leikur, en stigin og sigurinn er ekkert til að vanþakka. Fyrsti leikhlutinn var nokkuð góður hjá okkur, en strax í næsta hluta hleyptum við þeim inn í leikinn, og við gerðum það beinlínis af vítalínunni, þar sem þeir settu held ég hvern einasta bolta niður. Nú og allan seinni hálfleikinn var þetta svo ströggl við að láta þá ekki ná yfirhöndinni og það tókst, en það var erfitt,“ sagði Hannes við mbl.is.

Liðsfélagi hans, Svavar Atli Birgisson, segir að bæði lið hafi verið gjörn á mistök í leiknum.

„Þetta var harður leikur þar sem bæði lið léku góðan varnarleik, hins vegar voru sóknirnar býsna oft ómarkvissar, það var mikið um mistök og mislukkaðar sendingar, en það var hjá báðum liðum svo að það hefur sjálfsagt jafnast út.  Dómararnir dæmdu mikið og ef til vill þess vegna var oft og tíðum lítið flæði í sókninni,“ sagði Svavar við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert