Byrjunarliðin í stjörnuleiknum – Westbrook ekki valinn

LeBron James var efstur í kjöri hópanna þriggja sem völdu …
LeBron James var efstur í kjöri hópanna þriggja sem völdu byrjunarliðin í stjörnuleiknum. AFP

LeBron James og Kevin Durant fengu flest atkvæði þegar kosið var í stjörnulið austur- og vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Stjörnuleikurinn fer fram eftir tæpan mánuð, 19. febrúar, og verður tilkynnt um varamenn 26. janúar. Byrjunarliðin eru hins vegar klár, en það eru þrír hópar sem sjá um að velja liðin; stuðningsmenn, NBA-leikmenn og fjölmiðlamenn.

James og Durant voru vinsælastir í sínum stöðum í öllum þremur flokkum þeirra sem kusu.

Lið austurdeildar er skipað þeim James og Kyrie Irving úr meistaraliði Cleveland Cavaliers, Giannis Antetokounmpo úr Milwaukee Bucks, Jimmy Butler úr Chicago Bulls og DeMar DeRozan úr Toronto Raptors.

Byrjunarlið vesturdeildar er skipað Stephen Curry og Kevin Durant úr Golden State Warriors, Anthony Davis úr New Orleans Pelicans, James Harden úr Houston Rockets og Kawhi Leonard úr San Antonio Spurs.

Athygli vekur að Russell Westbrook komst ekki í byrjunarlið vesturdeildarinnar, þrátt fyrir að skora að meðaltali þrefalda tvennu í leik í vetur. Fjölmiðlamenn og leikmenn völdu hann reyndar í byrjunarliðið en ekki stuðningsmenn.

Fimm leikir voru á dagskrá í NBA-deildinni í nótt og hér að neðan má sjá úrslit þeirra.

Úrslit næturinnar:
Cleveland - Phoenix 118:103
Miami - Dallas 99:95
New York - Washington 110:113
San Antonio - Denver 118:104
LA Clippers - Minnesota 101:104

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert