Stórleikur Martins og Haukur vann líka

Martin Hermannsson í leik með Charleville.
Martin Hermannsson í leik með Charleville. Ljósmynd/David Henrot

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti enn einn stórleikinn fyrir Charleville í frönsku B-deildinni í kvöld. Hann lenti í mikilli dramatík með liði sínu í kvöld en vann að lokum í framlengingu gegn Saint-Quentin á útivelli, 85:80.

Martin skoraði 28 stig og tók 7 fráköst fyrir Charleville, en hann var jafnframt stigahæstu leikmaður vallarins. Um gríðarlega jafnan leik var að ræða. Staðan í hálfleik var 38:37 fyrir Saint-Quentin, en liðið var mikið mun betra í þriðja leikhluta og þá skildi að hjá liðunum. Martin og félagar unnu hins vegar fjórða leikhlutann 20:7 og tryggðu framlengingu. Staðan 75:75 eftir venjulegan leiktíma.

Í framlengingunni voru það svo Martin og félagar sem voru sterkari og uppskáru fimm stiga sigur 85:80. Charleville er jafnt liði Bourg-en-Bresse í öðru til þriðja sætinu með 22 stig eftir 15 leiki.

Haukur Helgi og félagar unnu botnslaginn

Það var ekki minni dramatík hjá Hauki Helga Pálssyni og félögum í liði Rouen, sem mættu botnliði Saint-Chamond í gríðarlegum fallslag í kvöld. Eftir háspennu unnu Haukar og félagar átta stiga sigur, 84:76.

Staðan í hálfleik var 40:38 fyrir Saint-Chamond og var botnliðið fetinu framar alveg þar til í síðasta hlutanum þegar Haukur og félagar sigu fram úr. Haukur Helgi skoraði 10 stig og tók 4 fráköst fyrir Rouen, en sigurinn var gríðarlega mikilvægur í botnbaráttunni.

Fyrir leikinn var liðið í þriðja neðsta sæti með jafn mörg sæti og liðin þar fyrir neðan, en hefur nú náð tveggja stiga forskoti á Saint-Chamond.

Haukur Helgi Pálsson í landsleik.
Haukur Helgi Pálsson í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert