Ellefu þristar hjá Curry

Stephen Curry
Stephen Curry AFP

Stephen Curry gerði ellefu þriggja stiga körfur í sigri Golden State Warriors á Charlotte Hornets 126:111 í NBA-deildinni í nótt, þrátt fyrir að hafa verið hvíldur allan fjórða leikhlutann. 

Curry þurfti einungis fimmtán tilraunir til að setja niður ellefu þrista og hefði sjálfsagt átt möguleika á því að bæta eigið NBA-met yfir flestar þriggja stiga körfur í leik í NBA ef hann hefði tekið meiri þátt í leiknum. Curry setti met í nóvember þegar hann gerði þrettán slíkar körfur gegn New Orleans.

Golden State gerði alls 21 þriggja stiga körfu í leiknum en liðið hefur unnið 42 leiki á tímabilinu en aðeins tapað 7. 

Miami Heat bætti við sigurgöngu sína þegar liðið fékk Atlanta Hawks í heimsókn til Flórída. Miami hefur nú unnið níu leiki í röð en lokatölurnar urðu 116:93. Slóveninn Goran Dragic var stigahæstur hjá Miami með 27 stig en Slóvenar eru með Íslendingum í riðli í lokakeppni EM í september. 

Úrslit:

Orlando - Indiana 88:98
Cleveland - Minnesota 125:97
Boston - Toronto 109:104
Brooklyn - New York 90:95
Miami - Atlanta 116:93
Detroit - New Orleans 118:98
Dallas - Philadelphia 113:95
Denver - Memphis 99:119
Utah - Milwaukee 104:88
Phoenix - LA Clippers 114:124
Oklahoma - Chicago 100:128
Golden State - Charlotte 126:111

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert