Ekkert töfradæmi á bak við þetta

Sverrir Þór Sverrisson gerði Grindavík að bikarmeistara árið 2015.
Sverrir Þór Sverrisson gerði Grindavík að bikarmeistara árið 2015. mbl.is/Ómar

„Ég fer aldrei fram úr sjálfum mér. Við erum bara að fara að mæta Haukum og það verður ekki pælt í einu né neinu öðru fyrr en við vitum hvort við komumst áfram í keppninni,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, þegar mbl.is spurði hann hvort hann hefði leitt hugann að úrslitaleik Maltbikarsins sem fram fer á laugardag.

Keflavík mætir Haukum í undanúrslitum bikarsins í dag kl. 17, en Snæfell og Skallagrímur mætast svo í hinum undanúrslitaleiknum kl. 20. Báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöll líkt og úrslitaleikurinn. Keflavík, Snæfell og Skallagrímur hafa átt í harðri toppbaráttu í Dominos-deildinni í vetur, en Haukar eru þar í 7. sæti. Sverrir segir Haukakonur hins vegar hafa tekið mjög jákvæðum breytingum eftir áramót, með komu hinnar bandarísku Nashika Williams.

„Já, mjög. Haukarnir eru með sína uppöldu leikmenn í lykilhlutverkum, alveg eins og við. Þetta tímabil mun fleyta þeim langt, alveg eins og hjá okkur, varðandi næstu ár vegna þess að leikmönnum hefur verið treyst. Núna er svo kominn góður erlendur leikmaður til Hauka, eftir smávesen í þeim málum, og hún gerir liðið bara betra. Við þurfum heldur betur að vera á tánum, eins og við sáum í síðasta leik gegn þeim. Það var hörkuleikur eins og maður bjóst við,“ sagði Sverrir, en Keflavík vann síðasta leik liðanna með aðeins þremur stigum.

Sverrir fagnaði bikarmeistaratitli með kvennaliði Njarðvíkur árið 2012.
Sverrir fagnaði bikarmeistaratitli með kvennaliði Njarðvíkur árið 2012. mbl.is/Eggert

Sverrir hefur þegar gert kvenna- og karlalið Grindavíkur að bikarmeistara, sem og kvennalið Njarðvíkur árið 2012. Hann þvertekur hins vegar fyrir að búa yfir leynibikaruppskrift:

„Nei, nei, nei. Maður er bara með sínar áherslur og reynir að miðla þeim, sama hvort um bikarleik eða deildarleik er að ræða. Það er ekkert öðruvísi núna. Ég einblíni bara á það sem ég vil að leikmenn mínir hugsi um, og að þeir séu sjálfir að hugsa um réttu hlutina, en það er ekkert töfradæmi á bak við þetta. Mann langar bara á hverju tímabili að komast í úrslitaleikinn, og vinna hann, og núna erum við alla vega komin í Höllina,“ sagði Sverrir.

„Ég hef ekki farið með Keflavík í bikarúrslit, þjálfaði þær 2005 og 2006 og tók svo aftur við í fyrra, en núna erum við bara einum leik frá því. Það er bara okkar að grípa tækifærið og vinna sterkt lið Hauka,“ sagði Sverrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert