Gíraði sig upp í margar vikur

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í baráttu um boltann við Maciej Baginski …
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í baráttu um boltann við Maciej Baginski í leiknum í dag. mbl.is/Golli

Einn efnilegasti körfuboltamaður landsins, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, kom frískur inn af varamannabekknum hjá KR í sigrinum á Þór frá Þorlákshöfn 78:71 í úrslitum Maltbikarsins í Laugardalshöll í dag. 

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Eiginlega ólýsanlegt. Maður er búinn að gíra sig upp fyrir þennan leik í fleiri fleiri vikur enda er þetta það skemmtilegasta sem maður gerir,“ sagði Þórir og hann lét sér ekki bregða þótt Þórsarar næðu óskabyrjun í leiknum og hefðu frumkvæðið lengst af í fyrri hálfleik. 

„Maður vissi að þeir myndu koma út úr klefanum með látum. Svona leikir eru leikir áhlaupa og ég vissi að maður þarf að vera rólegur. Maður vissi að okkar kaflar myndu einnig koma. Við náðum mjög góðu áhlaupi í þriðja leikhluta og þar tókst okkur mjög vel upp. Sem betur fer tókst okkur að halda forskoti sem við náðum þá,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is en þessi 18 ára gamli leikmaður fékk dýrmæta reynslu í dag. Lék í rúmar 17 mínútur í úrslitaleiknum. Á þeim tíma skoraði hann 4 stig, gaf 3 stoðsendingar, stal boltanum tvisvar og tók 2 fráköst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert