„Þarf nánast fullkominn leik til að vinna KR“

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, var vonsvikinn yfir því að fara ekki til búningsherbergja með forskot að loknum fyrri hálfleik í bikarúrslitaleiknum á móti KR í dag þar sem KR hafði betur, 78:71. 

Þórsarar byrjuðu mun betur og höfðu frumkvæðið nánast allan fyrri hálfleikinn. KR-ingar náðu hins vegar eins stig forskoti rétt fyrir hlé og að loknum fyrri hálfleik var staðan 35:34 fyrir KR. 

„Ég hefði viljað loka fyrri hálfleiknum betur. Við vorum yfir 34:27 þegar um tvær mínútur voru eftir af honum og þá gerðum við hlutina illa á hálfum velli í sókninni. Þessi vondi kafli elti okkur einhvern veginn inn í seinni hálfleikinn. Fljótfærnin truflaði okkur kannski á þessum kafla en þegar komið var inn í seinni hálfleikinn vantaði áræðni. Eins góðir og við vorum í vörninni í fyrri hálfleik hleyptum við þeim í 26 stig í 3. leikhluta sem er of mikið. Margir samverkandi þættir spila þar inn í en erfitt er að hleypa svona öflugu liði í fimmtán stiga forystu,“ sagði Einar þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum.

KR náði mest fimmtán stiga forskoti í seinni hálfleik en Þór saxaði það niður í 76:71 þegar um 90 sekúndur voru eftir. Þórsarar fengu boltann tvisvar í kjölfarið en tókst ekki að nýta sér það. 

„Ég vil hrósa mínum mönnum því þeir gáfust aldrei upp. Með smá heppni hefðum við getað hleypt spennunni betur upp á lokakaflanum. Tobin fékk gott stökkskot og Raggi og Emil fengu opin þriggja stiga skot og það hefði verið gaman að sjá eitthvert þessara skota fara niður. KR-liðið er gríðarlega sterkt og þú þarft að spila allt að því fullkominn leik til að vinna þetta KR-lið. Við höldum bara áfram að vinna í því að verða betri og sjá hvort við náum ekki að stríða þessum stóru körlum í náinni framtíð,“ sagði Einar Árni.

Tobin Carberry með boltann í úrslitaleiknum í dag.
Tobin Carberry með boltann í úrslitaleiknum í dag. mbl.is/Gollli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert