Fleiri og reynslumeiri en í frumrauninni á EM

Craig Pedersen, hinn kanadíski þjálfari karlalandsliðs Íslands í körfubolta, segir Ísland betur í stakk búið nú en áður til að eiga við bestu lið Evrópu á EM.

Nú sé færri spurningum ósvarað en þegar liðið fór á EM 2015 og landsliðshópurinn hafi blandast og „breikkað“. Hann fagnar því að Ísland leiki í Helsinki á EM í haust, en mótið fer fram í fjórum borgum, og segir það koma til með að gagnast íslenska liðinu að Jón Arnór Stefánsson leiki í Dominos-deildinni í vetur.

Pedersen var staddur hér á landi í tengslum við hina nýju bikarúrslitaviku KKÍ sem lauk um helgina. Þessi 51 árs gamli þjálfari hefur búið í Danmörku í mörg ár eftir að hafa komið þangað sem atvinnumaður árið 1989, en hann tók við íslenska landsliðinu vorið 2014. Eftir vel heppnað fyrsta Evrópumót Íslands í Berlín haustið 2015, skrifaði Pedersen undir nýjan samning við KKÍ og hætti starfi sínu sem þjálfari Svendborg í dönsku úrvalsdeildinni. Hann hefur því getað einbeitt sér meira en áður að íslenska landsliðinu og íslenskum körfubolta, sem verið hefur á stöðugri uppleið undanfarin ár. Pedersen kveðst fara með sterkara lið til Helsinki en til Berlínar árið 2015.

„Ég held það, því það hefur mjög mikið að segja að hafa núna prófað það að spila á EM. Ég held að það hafi meiri þýðingu en fólk gerir sér grein fyrir. Þegar við fórum á EM 2015 var ótalmörgu ósvarað. Verðum við bara drepnir í fyrsta leikhluta, eða getum við staðið í þessum liðum út heilan leik? Þetta fór betur en ég hefði getað óskað mér, þó að auðvitað hefði verið gaman að ná einum sigri. Við vissum ekkert um það hvar við stæðum og maður var nánast hræddur við það hvað gæti gerst gegn þessum stórþjóðum, en þetta fór afskaplega vel,“ segir Pedersen og rifjar upp hve vel gekk í leikjunum, sérstaklega gegn Þýskalandi, Ítalíu og í framlengdum leik við Tyrkland.

Meira af „við getum þetta“

„Reynslan af þessu öllu er svo dýrmæt, að hafa spilað gegn sumum af bestu liðum heims. Þess vegna vona ég að í Finnlandi byrjum við í fyrsta leik með meira svona „við getum þetta“-hugarfar. Ekki það að við höfum efast um okkur sjálfa síðast, en við vissum ekki við hverju átti að búast af liðum með fjölda NBA-manna í sínum röðum. Núna vita liðin reyndar meira um okkur og fylgjast kannski betur með okkur, og við þurfum að finna leiðir til að koma á óvart,“ segir Pedersen.

Formlegur lokaundirbúningur fyrir EM hefst 20. júlí. Fyrsti leikur Íslands á EM er svo gegn Grikklandi 31. ágúst. Fram að því leikur Ísland vináttulandsleiki við Belga, Rússa, Þjóðverja, Ungverja og Litháa, auk þess að leika á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í lok maí. Þannig fá okkar menn talsvert erfiðari andstæðinga fyrir EM nú en síðast.

Sjá allt viðtalið við Craig Pedersen í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert