„Má ekki tjá sig við dómarana“

Marvin Valdimarsson og Magic Baginski í baráttunni í Garðabæ í …
Marvin Valdimarsson og Magic Baginski í baráttunni í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var mjög glaður að sjá að við skyldum hafa þetta í seinni hálfleik. Þetta var ekki fallegur leikur, heldur hrár, en stigin skipta öllu máli,“ segir Marvin sem fylgdist með síðustu 15 mínútum leiksins utan vallar. Stjarnan fékk á sig fimm villur í öllum fyrri hálfleiknum, þar af Marvin tvær, en í þriðja leikhluta hrúguðust villurnar inn hjá Garðbæingum. Marvin var rekinn af velli eftir að hafa fengið tvær villur með skömmu millibili, og svo tæknivillu fyrir mótmæli.

„Kannski var þessi fimmta villa sem ég fékk einhver vendipunktur, ég veit það ekki. Dómgæslan var skelfileg, á báða bóga, og útkoma leiksins var ljót fyrir áhorfendur. Leikmenn og þjálfarar voru ekki ánægðir með spilamennsku liðanna og ég held að dómararnir hafi alveg gjörsamlega farið á sama „level“,“ segir Marvin. Tæknivilluna fékk hann fyrir að mótmæla villu sem hann kvaðst lítið skilja í af hverju var dæmd:

Missti hausinn í sekúndubrot

„Ég vissi ekki hvað gerðist. Við Emil [Karel Einarsson] vorum eitthvað að kljást, voða lítið, og þegar það var flautað vissi ég ekkert hvað hefði verið dæmt. Svo sá ég að það hafði verið dæmt á mig og missti bara hausinn í sekúndubrot. Ég sagðist ekki skilja dóminn og þá var ég bara rekinn út af,“ segir Marvin, sem kallaði að dómurunum eitthvað á borð við „Á mig? Ég skil ekki þessa dómgæslu,“ og það var of langt gengið:

„Það má ekki tjá sig við dómarana. Það er komin einhver lína sem mér finnst mjög slæm, þar sem er ekki hægt að tala maður við mann og fá útskýringu á hlutunum. Mér finnst það slæm þróun í körfuboltanum að leikmenn geti ekki talað við dómara eins og var gert í gamla daga,“ segir Marvin.

„Mér finnst þetta hafa breyst mjög mikið. Ég er búinn að spila einhver 16-17 ár í meistaraflokki og mér finnst dómgæslunni hafa farið aftur á síðustu árum. Ég veit ekki hver ástæðan er. Mér finnst oft að verið sé að kæfa ástríðuna og leikmenn fái ekki að tjá sig. Auðvitað á ekki að leyfa leikmönnum að rífa kjaft og vera með einhver hortugheit, en að maður megi ekki kalla eftir útskýringum lengur það skil ég ekki,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert