Stjarnan jöfn KR eftir hörkuleik

Tobin Carberry reynir að finna leið framhjá Marvin Valdimarssyni.
Tobin Carberry reynir að finna leið framhjá Marvin Valdimarssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan jafnaði KR að stigum á toppi Dominos-deildar karla í körfubolta með sigri á Þór Þorlákshöfn, 86:78, í miklum hörkuleik í Garðabæ í kvöld.

Stjarnan og KR eru með 26 stig en Þór er í 4. sæti með 18 stig, jafn Grindavík sem á leik til góða við Njarðvík á morgun.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn í kvöld betur og hittu mun betur úr skotum sínum, þar af úr fimm af níu þriggja stiga skotum. Þeir voru án Justin Shouse sem á við höfuðmeiðsli að stríða og aðrir þurftu að taka við hans þunga kefli. Staaðn eftir fyrsta leikhluta var 24:19 og hafði Tobin Carberry þá haft mjög hægt um sig í liði Þórs, sem lék til úrslita í bikarnun um helgina. Carberry tók hins vegar yfir 2. leikhluta og átti stærstan þátt í að staðan var jöfn að honum loknum, 47:47, og hafði þá skorað 17 stig. Hann gerði alls 30 stig í leiknum.

Þór náði svo forystunni í þriðja leikhluta og var fimm stigum yfir þegar honum lauk, 65:60. Mikill hiti var í leiknum í þeim fjórðungi og fékk Marvin Valdimarsson tvær villur, og svo fimmtu villu sína fyrir mótmæli. Hann hafði þá skorað 18 stig. Stjörnumenn fengu hins vegar gott framlag frá mönnum eins og Eysteini Bjarma Ævarssyni sem hitti úr þremur af fimm þristum sínum og skoraði 14 stig, og þá var Hlynur Bæringsson afar öflugur í seinni hálfleik jafnt í sókn sem vörn, en hann skoraði 20 stig í leiknum og tók 12 fráköst.

Stjarnan komst fram úr þegar leið á fjórða leikhluta og Þórsarar virtust ekki hafa orku til að hleypa spennu í leikinn á lokamínútunni. Niðurstaðan varð því átta stiga sigur Stjörnunnar.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Stjarnan - Þór Þ., 86:78
(24:19 - 47:47 - 60:65 - 86:78)

Leik lokið. (86:78) Stjarnan fagnar torsóttum en sanngjörnum sigri, og jafnar þar með KR að stigum á toppi deildarinnar.

40. (84:77) Stjarnan var nálægt því að brenna inni með boltann á eigin vallarhelmingi en Hlynur átti svo tæpa sendingu á Eystein sem náði boltanum í loftinu og fiskaði villu. Hann setti svo niður bæði vítaskot sín af öryggi, þegar 30 sekúndur eru eftir.

40. (82:77) Hlynur vann boltann af Carberry og Odunsi hirti sóknarfrákast eftir að hans eigið skot klikkaði. Nýtti ssvo seinna vítið sitt.

39. (81:77) Ein mínúta og 20 sekúndur eftir og Stjörnumenn enn yfir. Tómas Heiðar var að setja niður fyrra vítaskot sitt en klikkaði á því seinna.

35. (78:71) Eysteinn með annan þrist eftir að Hlynur hafði hitt af vítalínunni, og Hlynur skorar svo aftur. Átta stig í röð frá Stjörnunni og Þór tekur leikhlé.

34. (70:69) Eysteinn Bjarni kemur Stjörnunni yfir með þristi eftir að vörnin hafði í sameiningu unnið boltann af Carberry.

33. (67:69) Þórsarar hafa frumkvæðið í þessum lokafjórðungi en munurinn er aðeins tvö stig. Carberry hefur spilað hverja einustu sekúndu leiksins hingað til og er kominn með 26 stig.

Leikhluta 3 lokið. (60:65) Villurnar hafa hrúgast inn hjá Stjörnumönnum í þessum þriðja leikhluta, enda eru þeir orðnir vel pirraðir, sérstaklega eftir villurnar sem urðu til þess að Marvin fór af velli. Þeir fengu tíu villur í leikhlutanum. Þórsarar eru fimm stigum yfir, 65:60. Tobin og Magic hafa skorað 22 stig hvor. Hjá Stjörnunni er Marvin enn stigahæstur með 18 og Odunsi hefur ekki bætt við stigi í seinni hálfleik, er með 17. Hlynur er kominn með 11.

25. (53:52) Ja hérna. Marvin hefur lokið leik í kvöld, með 18 stig. Hann fékk tvær villur á skömmum tíma, og við þá seinni mótmælti hann aðeins. „Á mig?“ held ég að hann hafi kallað, og fékk tæknivillu fyrir. Það var hans fimmta villa.

24. (51:51) Hlynur varði skot Ólafs Helga og reif svo til sín sóknarfrákast á hinum enda vallarins. Hann setti svo niður körfu úr skelfilegu færi en skotklukkan kláraðist sekúndubroti áður en boltinn fór úr höndum hans.

22. (47:51) Seinni hálfleikur er hafinn og Magic byrjar hann á að leggja laglega upp fyrir Ragnar og skora svo sjálfur.

Hálfleikur. (47:47) Carberry virtist haldinn einhverri bikarúrslitaþynnku í upphafi leiks en hann er búinn að fá sér afréttara, eða eitthvað. Sá hefur alla vega tekið við sér, jafnt í sókn sem vörn, og öðrum fremur séð til þess fyrir Þór að staðan er jöfn í hálfleik, 47:47. Hann fíflaði Stjörnumenn illa í lokasókn hálfleiksins og skoraði 13 stig í leikhlutanum. Hann er stigahæstur Þórs með 17 stig en Magic er með 16. Hjá Stjörnunni er Odunsi með 17 stig og Marvin 16.

18. (39:38) Magic fór illa með Odunsi og kom Þór yfir en Marvin setti svo niður þrist fyrir Stjörnuna. Liðin skiptast á að hafa forystuna þessar mínúturnar.

15. (32:34) Carberry kemur Þór yfir af vítalínunni eftir að þeir Halldór Garðar stálu boltanum af harðfylgi á miðjum vellinum. Hrafn þjálfari Stjörnunnar er allt annað en glaður.

14. (30:28) Carberry er að hitna og var að troða boltanum eftir að hafa stolið honum af Stjörnumönnum, sem taka leikhlé.

13. (25:23) Munurinn tvö stig. Nánasat allt byrjunarlið Stjörnunnar á bekknum þessa stundina en Odunsi og Marvin eru að koma inn á.

Leikhluta 1 lokið. (24:19) Stjörnumenn spjara sig ágætlega í sóknarleiknum án Justin Shouse og eru yfir. Þeir náðu mest tíu stiga forskoti, 21:11. Marvin er þeirra stigahæstur með 8 stig en Odunsi er með 7. Hjá Þór á Carberry enn eftir að skora úr opnum leik en hann setti niður tvö víti í upphafi leiks. Magic hefur hins vegar nýtt skotin sín mjög vel og er með 10 stig.

7. (18:9) Tveir þristar í röð, frá Tómasi og Odunsi, fyrir Stjörnumenn sem komast níu stigum yfir.

5. (11:7) Algjörlega áreynslulaus þristur frá Marvin en Emil Karel svarar fyrir gestina. Hann var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna í bikarúrslitaleiknum.

3. (6:2) Hlynur var að búa sér til körfu með því að snúa Ólaf Helga af sér. Tómas Heiðar fær það erfiða hlutskipti að verjast Carberry og byrjar vel.

1. Leikur hafinn! Þá er þetta farið af stað. Hlynur tryggir Stjörnunni fyrstu sókn.

0. Þórsarar eru heldur þunnskipaðir í kvöld eða aðeins með 10 leikmenn á skýrslu. Grétar Ingi Erlendsson er til að mynda ekki með. Leikmannahópana má sjá hér að neðan en fyrstu fimm á hvorum lista byrja inná í kvöld.

Stjarnan: Anthony Odunsi, Marvin Valdimarsson, Hlynur Bæringsson, Tómas Heiðar Tómasson, Arnþór Freyr Guðmundsson, Egill Agnar Októsson, Magnús Bjarki Guðmundsson, Ágúst Angantýsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Eysteinn Bjarni Ævarsson, Brynjar Magnús Friðriksson.

Þór Þ.: Emil Karel Einarsson, Ragnar Örn Bragason, Tobin Carberry, Ólafur Helgi Jónsson, Maciej Baginski, Benjamín Þorri Benjamínsson, Halldór Garðar Hermannsson, Magnús Breki Þórðarson, Styrmir Snær Þrastarson, Þorsteinn Már Ragnarsson.

--------------------

18.45 - Tómas Heiðar Tómasson missti af síðasta leik Stjörnunnar vegna ökklameiðsla en er hér að hita upp líkt og aðrir liðsfélagar hans.

18.15 - Stjarnan er án Justin Shouse í kvöld líkt og í síðasta leik, en hann hefur ekki jafnað sig af höfuðmeiðslum sem hann varð fyrir á æfingu fyrir mánuði. Shouse hefur átt gott tímabil og skorað yfir 17 stig að meðaltali í leik, gefið 4,9 stoðsendingar og tekið 4,5 fráköst.

18.15 - Stjörnumenn hafa fengið tveggja vikna frí frá síðasta leik þar sem þeir voru ekki með í undanúrslitum eða úrslitum Maltbikarsins. Þórsarar komust hins vegar í úrslitaleikinn en töpuðu honum fyrir KR á laugardag.

18.15 - Gott kvöld og verið velkomin í beina textalýsingu frá leik Stjörnunnar og Þórs Þorlákshöfn í Dominos-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert