Bikarmeistararnir brotlentu á Akureyri

Pavel Ermolinskij og félagar í KR náðu ekki að komast …
Pavel Ermolinskij og félagar í KR náðu ekki að komast aftur á toppinn. mbl.is/Árni Sæberg

Þór frá Akureyri tók KR í hálfgerða kennslustund í kvöld þegar liðin mættust í Dominos-deild karla í körfubolta á Akureyri en lokatölur urðu 83:65 fyrir nýliðana.

Nýkrýndir bikarmeistarar KR voru inni í leiknum fyrstu mínúturnar og allan fyrri hálfleikinn en þegar á leið læstu Þórsarar vörninni sinni og stungu af. KR-ingar voru verulega slakir og áttu ekki roð í baráttuglaða Þórsara. 

Fylgst var með gangi mála á mbl.is.

40. Leik lokið. Þór rúllar yfir KR 83:65. KR reyndi að minnka muninn og klára leikinn með sæmd en allt kom fyrir ekki. Aðeins góð innkoma Arnórs Hermannssonar lýsti upp leik þeirra. KR er nú fallið niður í 2. sætið í deildinni en Þór fer upp í það fimmta.

35. Staðan er 79:52 fyrir Þór. Þröstur Leó Jóhannsson opnaði lokaleikhlutann með tveimur risaþristum fyrir Þór. KR-ingar máttu illa við því og næstu mínútur var pirringur áberandi hjá Vesturbæingum enda gekk nánast allt upp hjá Þór. 

30. Staðan er 64:48 fyrir Þór. Þór bætti í forskot sitt og komst í 56:44. Þá var Finnur Stefánsson, þjálfari KR, búinn að sjá nóg og tók leikhlé. Dugði það lítið og heimamenn héldu uppteknum hætti, komust í 60:44 áður en KR náði að svara með körfu. Stemningin var öll hjá Þór og KR-ingar virtust hálf ráðalausir. Pavel Ermolinskij skoraði fyrstu körfu sína rétt fyrir lok leikhlutans. Athygli vekur að Þórsarar eru aðeins komnir með sex villur á fyrstu 30 mínútunum.

25. Staðan er 50:44 fyrir Þór. Leikhlutinn hófst með miklum látum en kappið var meira en menn réðu við. Þór skoraði ekki stig lengi vel og KR var við það að ná norðanpiltum. Kom þá Friðrik Helgi Rúnarsson með töfrakörfu og Þórsarar hrukku aftur í gang.

20. Staðan er 45:37 fyrir Þór. George Beamon byrjaði á þristi og síðan komu nokkur skot frá liðunum þar sem boltinn skoppaði á körfuhringnum. Þór tók yfirhöndina og komst í 35:28. Varnarleikur heimamanna var magnaður og KR-ingar þurftu að sætta sig við erfið skot. Aðeins Jón Arnór Stefánsson virtist geta hitt úr skotum sínum

10. Staðan er 23:24 fyrir KR. Liðin byrjuðu bæði afar rólega og skoruðu lítið. Þórsarar fundu engar glufur á meðan KR-ingar klúðruðu sínum færum undir körfu Þórs. Darri Hilmarsson hitti hins vegar úr þristunum sínum. Eftir fimm mínútur var staðan 11:11. KR átti svo ágætan kafla undir en Þórsarar hleyptu þeim aldrei of langt frá sér. Tryggvi Snær Hlinason er búinn að skora mest í leiknum, ásamt KR-ingnum Philip Alawoya. Hvor er með tíu stig

1. Leikurinn er hafinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert