„Þeirra er heiðurinn en okkar er skömmin“

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnur Stefánsson, þjálfari KR í Dominos-deild karla, var ekki mikið að æsa sig eftir að menn hans höfðu fengið skell gegn Þór á Akureyri í kvöld. KR-ingar virkuðu þungir og áhugalitlir gegn baráttuglöðum Þórsurum. Fór svo að lokum að Þór vann þægilegan sigur 83:65.

„Ég er alveg rólegur, sestu bara hérna“ sagði Finnur. „Við vorum slakir í þessum leik og Þórsararnir mun betri á öllum sviðum. Það verður ekki tekið af þeim. Þeirra er heiðurinn en okkar er skömmin. Við máttum vita það að það yrði erfitt að koma hingað svona strax eftir bikartitilinn. Menn voru ekki klárir. Það var deyfð yfir liðinu allan fyrri hálfleikinn og það eina jákvæða sem ég sá í seinni hálfleik var frammistaða Arnórs Hermannssonar.“

Nú var Brynjar Þór ekki með. Mun hann missa af fleiri leikjum?

„Ég tel nokkuð víst að hann verði ekki með núna á sunnudaginn gegn ÍR, en geri mér vonir um að hann geti spilað gegn Njarðvík eftir viku. Þótt hann hafi vantað í kvöld á það ekki að hafa svona mikið að segja. Við erum með það sjóaðan mannskap. Ég endurtek bara það sem ég sagði áðan. Þórsararnir unnu fyrir þessu og voru einfaldlega betri en við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert