Áttundi útisigur Skallagríms í röð

Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Stjörnunni, með boltann í kvöld en Jóhanna …
Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Stjörnunni, með boltann í kvöld en Jóhanna Björk Sveinsdóttir, Skallagrími, er til varnar. mbl.is/Golli

Það var boðið upp á hnífjafnan og skemmtilegan leik í Ásgarði í kvöld þegar Stjarnan fékk Skallagrím í heimsókn í 23. umferð Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik. Eftir mikla spennu var það Skallagrímur sem fór með sigur af hólmi, 84:79, og minnir á sig í toppbaráttunni eftir tvo tapleiki í röð.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að um jafnan og spennandi leik yrði að ræða. Stjarnan byrjaði ögn betur áður en Skallagrímur tók forystu, en áður en fyrsti leikhluti var úti náðu heimakonur að jafna á ný, 20:20.

Annar leikhluti var svo hreint ótrúlegur. Skallagrímur byrjaði betur en í stöðunni 33:29 fyrir þeim tóku Stjörnukonur heldur betur völdin. Þær skoruðu 14 stig gegn tveimur og náðu átta stiga forystu, 43:35. Það tók Skallagrím hins vegar aðeins rúma mínútu að jafna metin aftur, 43:43, og staðan hnífjöfn þegar gengið var til búningsklefa í skemmtilegum leik.

Þriðji leikhluti var svipaður. Skallagrímur byrjaði betur en um miðjan leikhlutann skoraði Stjarnan níu stig í röð og náðu átta stiga forystu 58:50. En það var eins og fyrir hlé, Borgnesingar söxuðu jafnt og þétt á forskotið og fyrir fjórða leikhluta var spennan mikil sem fyrr, 63:62 fyrir Stjörnunni.

Fjórði leikhluti byrjaði hreint hræðilega hjá Skallagrími. Liðið skoraði ekki fyrr en eftir rúmar þrjár mínútur og þar að auki voru Tavelyn Tillman, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Jóhanna björk Sveinsdóttir allar komnar með fjórar villur snemma í leikhlutanum.

Stjarnan náði forystunni og var með sex stiga forystu þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, en hlutirnir eru fljótir að breytast. Skallagrímur skoraði níu stig í röð og komst þremur stigum yfir þegar mínúta var eftir. Stjarnan náði ekki að svara þessu og áttundi útisigur Skallagríms í röð staðreynd, 84:79.

Tavelyn Tillman var stigahæst hjá Skallagrími með 35 stig en hjá Stjörnunni skoraði Danielle Rodriguez 31 stig. Skallagrímur er með 34 stig í þriðja sæti deildarinnar en Stjarnan er í því fjórða með 34 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is

40. Leik lokið, lokatölur 79:84. Gríðarlega skemmtilegur leikur að baki!

40. 79:82. Sléttar 30 sekúndur á klukkunni og Borgnesingar með þriggja stiga forystu. Ragna Margrét er farin af velli með 5 villur hjá Stjörnunni.

39. 75:78. Níu stig í röð hjá Borgnesingum! Á um tveggja mínútna kafla er leikurinn gjörbreyttur. 1:14 á klukkunni og Skallagrímur með yfirhöndina. Þetta verður löng síðasta mínúta!

38. 75:74. Þetta er náttúrulega geggjuð íþrótt! Fanney setur niður þrist og Sigrún Sjöfn skorar strax eftir að Stjarnan missti boltann. Eins stigs munur og 2:21 á klukkunni.

37. 73:69. Baráttan er í fyrirrúmi þessa stundina. Borgnesingar eru enn að elta, en Tillman var að setja niður tvö víti.

35. 73:66. Bríet setur niður þrist fyrir Stjörnuna og munurinn sjö stig. Skallagrímur er ekki að ná að vinna sig út úr vandræðunum sem hafa einkennt leik liðsins í fjórða hluta. Nú þurfa þær að fara að bæta í.

33. 70:62. Það gengur ekkert hjá Skallagrími í fjórða leikhluta. Hafa ekki skorað, fengið á sig sjö stig og Tavelyn, Sigrún Sjöfn og Jóhanna Björk eru komnar með fjórar villur. 

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 63:62. Eins og í öðrum hluta unnu Borgnesingar forskot Stjörnunnar upp aftur. En jafnræðið er það sama, hér er allt hnífjafnt og ljóst að fjórði leikhluti verður gríðarspennandi. Danielle Rodriguez er með 23 stig hjá Stjörnunni og Tavelyn Tillman með 27 hjá Skallagrími. 

27. 58:53. Eftir níu stig í röð hjá Stjörnunni setur Sigún Sjöfn niður gríðarlega mikilvægan þrist fyrir Skallagrím. Fimm stiga munur.

25. 53:50. Er þetta að spilast eins og 2. hluti? Skallagrímur byrjaði betur en nú er byrinn með Stjörnunni. Danielle seti niður tvö og missti þrist, en Ragna Margrét tók frákastið.

24. 47:50. Fanney Lind setti tóninn fyrir Skallagrím strax eftir nokkrar sekúndur í þriðja leikhluta með því að negla niður þrist. Gestirnir skoruðu fyrstu fimm stigin en Stjarnan er aldrei langt undan.

20. Hálfleikur, staðan er 43:43. Þetta var svakalegur annar leikhluti og má með sanni segja að hann hafi verið kaflaskiptur. Hjá Stjörnunni er Danielle Rodriguez stigahæst með 11 stig og næst koma Ragna Margrét og Bríet Sif með 8. Hjá Skallagrími er Tavelyn Tillman með 18 stig og Fanney Lind með 11.

Aðrir leikir kvöldsins eru komnir misjafnlega langt á veg. Ef við horfum á toppbaráttuna þá eru Snæfell og Keflavík ekkert að misstíga sig. Snæfell er að vinna Njarðvi´k 31:19 og Keflavík er yfir í Grindavík 24:20. Þá er Valur að vinna Hauka 38:23.

19. 43:43. Vá, þetta er fljótt að breytast. Eftir 14:2 kafla Stjörnunnar, sem náði átta stiga forskoti, skoraði Skallagrímur sjö stig á hálfri mínútu og minnkaði muninn í eitt stig. Nú fór svo Ragnheiður Benónísdóttir á vítalínuna og jafnaði metin.

18. 40:35. Meðbyrinn er sannarlega Stjörnunnar núna. Bríet Sif Hinriksdóttir skellir í sinn annan þrist í leiknum. 11:2 kafli hjá Stjörnunni núna eftir að hafa verið undir 33:29.

16. 35:33. Frábær kafli hjá Stjörnunni núna, Jenný Harðardóttir setur þrist og kemur heimakonum yfir.

13. 24:31. Skallagrímur er með yfirhöndina en það er mjótt á munum. Danielle er að hvíla hjá Stjörnunni en hinum megin er Fanney Lind heldur betur að minna á sig. Setur niður þrist og er komin með 11 stig.

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 20:20. Stjörnukonur byrjuðu leikinn ögn betur, áður en gestirnir komust betur inn í leikinn og náðu mest sjö stiga forskoti. Frábær endurkoma Stjörnunnar á síðustu tveimur mínútunum jafnaði hins vegar leikinn á ný. Danielle Rodriguez er með 9 stig fyrir Stjörnunar og Tavelyn Tillman með 7 stig hjá Skallagrími.

9. 15:18. Danielle með körfu góða og víti niður. Mikilvæg þrjú stig til að minnka muninn fyrir Stjörnuna.

7. 9:14. Tveir þristar í röð hjá gestunum. Fyrst Sigrún Sjöfn þegar klukkan er að renna út og nú setur Tavelyn Tillman annan.

3. 7:6. Mikill hraði hér í byrjun leiks. Danielle Rodriguez í liði Stjörnunnar var fljót að ná stjórn á leiknum og hefur tekið hver frákastið á fætur öðru, þó ekki sé hún há í loftinu.

1. Leikurinn er hafinn.

0. 20 mínútur þar til flautað verður til leiks og liðin eru að hita upp af krafti. Skallagrímur hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum, tveimur í deildinni og einum í bikarnum, en hefur engu að síður unnið síðustu sjö útileiki sína í deildinni. Kemur sá áttundi í kvöld?

0. Velkomin með mbl.is í Garðabæ þar sem leikur Stjörnunnar og Skallagríms í toppbaráttu deildarinnar fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert