Úrslitakeppnisbragur yfir stemningunni á Króknum

Viðar Ágústsson á ferðinni gegn KR.
Viðar Ágústsson á ferðinni gegn KR. mbl.is/Styrmir Kári

Viðar Ágústsson lét að sér kveða í vörn og sókn þegar Tindastóll vann frábæran sigur á Stjörnunni, 92:69, á Sauðárkróki í 18. umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta. Sigurinn hleypti enn frekari spennu í baráttuna um deildameistaratitilinn og þar af leiðandi heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Sú barátta stendur á milli KR, Tindastóls og Stjörnunnar en ríkjandi meistarar í KR eru með tveggja stiga forskot á hin tvö.

Viðar er einn þeirra leikmanna sem voru í U-20 ára landsliðinu sem vann B-deild Evrópukeppninnar í fyrra en hann varð 21 árs nú í byrjun árs. Ökklameiðsli héldu honum að mestu leyti frá keppni fyrir áramót en eftir áramót hefur Viðar smám saman verið að sækja í sig veðrið.

„Ég var meiddur á ökkla og hafði verið síðan í sumar. Það tengdist liðbandi að innanverðu og kom fyrst upp þegar ég var úti með landsliðinu síðasta sumar. Ég meiddist aftur rétt fyrir hálfleik í fyrsta leiknum í deildinni á móti KR síðasta haust. Ég tók mér hvíld og spilaði ekki aftur fyrr en á móti KR hér heima í janúar. Í millitíðinni var ég að vinna í sjálfum mér og með styrktarþjálfara. Ég held að ég sé allur að koma til,“ sagði Viðar þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í gær en hann spilaði í 27 mínútur gegn Stjörnunni.

Viðar hefur haft tvo sjúkraþjálfara til að hjálpa sér varðandi ökklann. Annars vegar systur sína Rakel og hins vegar Helenu sem er sjúkraþjálfari liðsins á Króknum. „Þær sjá um mig og halda mér gangandi.“

Nánar er rætt við Viðar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert