Stjarnan vann í mögnuðum leik

Hlynur Bæringsson og félagar eru í harðri toppbaráttu.
Hlynur Bæringsson og félagar eru í harðri toppbaráttu. mbl.is/Golli

Stjarnan jafnaði topplið KR að stigum eftir torsóttan sigur í Garðabæ gegn nýliðum Skallagríms í 19. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í kvöld í sannkölluðum hörkuleik, 83:80.

Borgnesingar byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti. Magnús Þór Gunnarsson setti tóninn með tveimur þristum á fyrstu tveimur mínútunum, og gestirnir skoruðu fyrstu sjö stig leiksins. Stjörnumenn voru óþekkjanlegir og Skallagrímur náði 18 stiga forystu, 28:10, og voru yfir eftir leikhlutann 30:15.

Hvort þeir hafi verið orðnir of góðir með sig eða hvað skal ekki segja, en annar leikhluti var algjör andstæða þess fyrsta. Stjörnumenn vöknuðu heldur betur til lífsins og kaffærðu Borgnesinga. Þegar skammt var til hálfleiks höfðu Stjörnumenn skorað 21 stig gegn aðeins fimm, en gestirnir náðu að skora síðustu fimm stigin fyrir hálfleik og héldu eins stigs forskoti að loknum öðrum hluta 45:44.

Baráttan var í fyrirrúmi í þriðja leikhluta, á meðan leikurinn sjálfur var í járnum og liðin skiptust á að hafa forystuna. Fyrir fjórða og síðasta hluta var staðan 61:60 fyrir Stjörnuna og ljóst að lokaspretturinn yrði ekki síður spennandi.

Það stóð heldur betur heima, og þegar aðeins ein mínúta var eftir af leiknum var staðan 78:77 fyrir Stjörnuna. Sú mínúta var rafmögnuð eins og gefur að skilja, liðin skiptust á að setja glæsilega þrista og lokasekúndurnar voru lengi að líða. Að lokum voru það Stjörnumenn sem héldu út og uppskáru nauman sigur, 83:80, í hreint mögnuðum leik.

Marvin Valdimarsson var stigahæstur hjá Stjörnunni með 22 stig, en Hlynur Bæringsson var aðeins tveimur stigum frá því að ná hinni eftirsóttu þreföldu tvennu. Hann skoraði 8 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Hjá Skallagrími far Flenard Whitfield langbestur með 27 stig.

Stjarnan jafnaði topplið KR með 28 stig, eins og Tindastóll, en Skallagrímur er í þriðja neðsta sæti með 14 stig, jafnmörg og Haukar.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

40. Leik lokið, lokatölur 83:80. Maggi Gunn missti þristinn í lokin. Geggjaður leikur!

40. 83:80. Marvin setur niður tvö víti fyrir Stjörnuna. 10 sekúndur eftir. Leikhlé.

40. 81:80. VÁ! 11 sekúndur eftir þegar Maggi Gunn, sem hefur verið íííískaldur frá því í fyrsta hluta, hendir í þrist í ótrúlegri stöðu. Eitt stig, ellefu sekúndur, og geggjaður leikur!

40. 81:77. Arnþór hendir í þrist þegar 18 sekúndur eru eftir! Nær Skallagrímur að svara? Þetta er tveggja sókna leikur.

40. 78:77. Sigtryggur setur niður öll þrjú víti sín og munurinn aftur eitt stig. 55 sekúndur á klukkunni. 

39. 78:74. Arnþór setur niður þrist, nánast frá miðju ég get svo svarið það.

38. 75:74. Whitfield fékk tvö víti, setti niður annað og náði því ekki að jafna. 

37. 72:71. Þetta er alveg hreint geggjaður leikur. Eyjólfur Ásberg hendir sér núna í þrist og munurinn eitt stig. Þetta verða langar síðustu mínútur. 3:30 á klukkunni.

35. 69:66. Það er sama baráttan hér og í þriðja hluta, en Stjörnumenn eru með frumkvæðið. Sigtryggur Arnar stelur boltanum núna og skorar. Munurinn þrjú stig - sem er náttúrulega ekki neitt!

Hlynur Bærings er með 8 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Tveimur stigum frá þrennunni. Anthony Odunsi hefur hins vegar verið ósjáanlegur í leiknum. Með tvö stig hjá heimamönnum.

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 61:60. Við erum heldur betur að fara í spennandi fjórða hluta, sérstaklega ef sú barátta sem einkenndi leikinn þessar síðustu mínútur heldur áfram. 

Flenard Whitfield er enn stigahæstur á vellinum, með 22 stig, en hjá Stjörnunni er Marvin Valdimarsson kominn með 12. Hlynur er aðeins tveimur stigum og einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu.

26. 55:55. Baráttan er allsráðandi hér í þriðja leikhluta, það verður að segjast alveg eins og er. Menn berjast um hvern bolta og á meðan er stigataflan hnífjöfn. Bókstaflega!

24. 52:49. Stjörnumenn eru komnir fetinu framar en jafnræðið er enn gríðarlegt. Ég ætla að segja að Hlynur nái þrennunni, það vantar ekki mikið upp á!

20. Hálfleikur. Staðan er 44:45. Magnaður viðsnúningur Stjörnunnar hér í öðrum hluta og heimamenn unnu hann 29:14, en eru samt undir í hálfleik.. Algjörlega svart og hvítt miðað við fyrsta hluta, og ég hreinlega skil ekki hvernig Borgnesingar gátu gjörsamlega hrunið svona. Síðustu fimm stig leikhlutans voru þeirra, sem lagaði tölfræðina aðeins.

Maggi Gunn er búinn að kólna allsvakalega hjá þeim eftir fyrsta hluta þegar hann setti þrjá þrista, en það er Flenard Whitfield sem dregur vagninn einsamall núna með 18 stig. Hjá Stjörnunni er Tómas Þórður stigahæstur með 10 stig. Hlynur er með 6 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Þrenna í vændum?

19. 44:40. Hlynur er að komast í gang, setur niður sína fyrstu körfu í opnum leik áður en hann sullar niður þriggja stiga. Fjögurra stiga munur, Stjörnunni í vil, í fyrsta sinn í leiknum.

17. 36:37. Stjarnan komst yfir í fyrsta sinn í leiknum, 36:35, áður en Flenard Whitfield kom Borgnesingum aftur yfir. Staðan í öðrum leikhluta er 21:7 fyrir Stjörnunni, en Hlynur er enn bara með eitt stig. Magnaður viðsnúningur.

16. 34:35. Óíþróttamannsleg villa á Darrel Flake, sem er hundfúll með það. Virtist bara standa kyrr á meðan Arnþór hljóp á hann og hentist niður. Arnþór setur niður tvö víti og munurinn aðeins eitt stig.

15. 29:33. Nú hefur dæmið gjörsamlega snúist við. Borgnesingar aðeins skorað þrjú stig á fimm mínútum í leikhlutanum og Maggi Gunn, sem var svo sjóðheitur, henti í einn „air-ball“ fyrir utan línuna. Fjögurra stiga munur.

12. 25:31 Já Borgnesingar, það er ekki sopið kálið! Stjarnan með 10:1 kafla hér í upphafi annars hluta og leikurinn galopinn á ný!

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 15:30. Þessi fyrsti hluti hefur verið hreinn draumur fyrir Borgnesinga. 15 stiga munur að honum loknum, en Tómas Þórður setti niður flautuþrist sem lagaði stöðuna aðeins fyrir heimamenn. Hlynur Bærings er bara með eitt stig hjá heimamönnum og hefur verið ískaldur. Maggi Gunn er með níu hjá Sköllunum, allt þristar.

8. 10:28 Það er aðeins einn Maggi Gunn! 11:2 kafli hjá Skallagrími núna eftir að hann setur þriðja þristinn. Hvar eru Stjörnumenn?

7. 10:23. Sigtryggur Arnar setur niður þrist, en fær fljótt sína aðra villu. Sest á bekkinn í smá kælingu. Darrell Flake er að nýta öll sín ár í teignum og hefur komið sterkur inn af bekknum. Það er allt niðri hjá Borgnesingum en Stjörnumenn halda áfram í basli. 

6. 9:16. Hlynur er búinn að klikka á tveimur dauðafærum í teignum, sem er slæmt fyrir Stjörnuna. Whitfield náði svo að blokka hann allsvakalega. Tómas Þórður henti í þrist fyrir heimamenn og minnkar muninn í sjö stig á ný.

3. 2:12. Hrafn Kristjánsson tekur leikhlé hjá Stjörnunni strax í upphafi. Maggi setti annan þrist og svo var Flenard Whitfield að troða yfir Hlyn Bæringsson strax í kjölfarið. Það er ekki á færi margra!

3. 0:7. Geggjuð byrjun hjá Borgnesingum sem skora fyrstu sjö stig leiksins. Maggi Gunn setti meðal annars fallegan þrist þegar skotklukkan rann út. Hann kann þetta.

1. Leikurinn er hafinn. Trommusveit frá Borgarnesi er áberandi í annars fámennri stúkunni og sér til þess að keyra stemninguna í gang.

0. Stjarnan tapaði illa fyrir Tindastóli í síðustu umferð, 92:69, og missti um leið annað sætið í hendur þeirra. Skallagrímur vann hins vegar botnlið Snæfells í framlengingu. Liðin eru nú á fullu að hita upp og vonandi að skemmtunin í kvöld verði álíka þeirri sem boðið var upp á í gær.

0. Velkomin með mbl.is í Garðabæ þar sem Stjarnan tekur á móti Skallagrími. Þessi lið mættust einmitt hér á sama stað á sama tíma í gærkvöld, í Dominos-deild kvenna. Eftir jafnan og spennandi leik voru það Borgnesingar sem fóru með sigur af hólmi, 84:79. Hvað gerist í kvöld?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert