Vantaði drápseðli sem þeir höfðu

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er orðinn einn erfiðasti útivöllur landsins. Það er frábær stemning hérna og menn eru syngjandi og trallandi í 40 mínútur. Þó að ég sé sár og svekktur að tapa hérna þá get ég ekki annað en hrósað þessum stuðningsmönnum ÍR. Þeir eru sjötti og jafnvel sjöundi maðurinn á vellinum,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs Ak., eftir 100:78 tap gegn ÍR í Breiðholtinu í kvöld. 

„Menn réðu ekki við þetta til að byrja með og við gröfum okkur holu. Mínir menn voru ekki eins viljugir og ÍR-ingarnir hérna í kvöld. Mér fannst grimmdin vera öll ÍR megin. Þeir spiluðu fast og voru með drápseðli sem okkur vantaði.“

„Það sem verður okkur að falli eru sóknarfráköstin þeirra og svo töpuðu boltarnir okkar þar sem við erum að hörfa. Í fyrri hálfleik tóku þeir 13 skotum fleiri en við og það er drulluerfitt að eiga við svoleiðis.“

Þórsarar eru nú í síðasta sætinu sem gefur þátttöku í úrslitakeppninni og segir Benedikt að liðið verði að vinna tvo af síðustu þrem leikjum sínum í deildinni til að ná inn í úrslitakeppnina. 

„Það er langt frá því að vera öruggt að vera í topp átta. Við verðum að vinna tvo af síðustu þremur til að komast inn í úrslitakeppnina. Nú reynir á okkur í næsta leik. Þetta er búið að vera sagan hjá okkur. Annaðhvort spilum við frábærlega eða erum langt frá því að vera góðir. Við erum búnir að vera að leita að stöðugleika í vetur en við höfum ekki fundið hann.“

Þröstur Leó Jóhannsson fékk óskiljanlega óíþróttamannslega villu í leiknum en Benedikt vildi ekki mikið tjá sig um það. 

„Ég skil ekki þann dóm, en það er best að tjá sig ekki um eitthvað sem maður skilur ekki,“ sagði Benedikt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert