Jón Arnór tryggði KR sigurinn

Frá fyrri leik KR og Njarðvíkur í vetur.
Frá fyrri leik KR og Njarðvíkur í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Arnór Stefánsson tryggði Íslandsmeisturum KR sigurinn gegn Njarðvík í æsispennandi leik í Dominos-deild karla í körfuknattleik í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld. KR marði eins stigs sigur, 81:80.

Það gekk mikið á síðustu mínútur leiksins. Jóhann Árni Ólafsson kom Njarðvík í 80:79 þegar 15 sekúndur voru til leiksloka. Darri Hilmarsson tapaði boltanum fyrir KR-inga en Njarðvíkingar gerðu slíkt hið sama þremur sekúndum fyrir leikslok. Í kjölfarið var brotið á Jóni Arnóri og honum urðu ekki á nein mistök á vítalínunni. Hann setti bæði vítaskotin niður og KR-ingar fögnuðu sætum sigri gegn baráttuglöðu liði Njarðvíkinga.

Með sigrinum náðu KR-ingar tveggja stiga forskoti á toppi deildarinnar. KR-ingar eru með 30 stig, tveimur stigum meira en Tindastóll. Njarðvíkingar, sem voru hársbreidd frá sigri eru með 18 stig í 9. sæti deildarinnar.

Logi Gunnarsson skoraði 20 stig fyrir Njarðvíkinga og Myron Dempsey kom næstur með 18. Hjá KR-ingum var Philip Alawoya stigahæstur með 28 stig og Jón Arnór skoraði 15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert