Menn geta verið þreyttir í allt sumar

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Númer eitt, tvö og þrjú er ég glaður að við sýndum betri leik og náðum í sigur. Nú þarf bara að hlaða batteríin fyrir næsta stríð,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, við mbl.is eftir sigur gegn Grindavík 90:86 í öðrum einvígisleik liðanna í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í kvöld. Þórsarar jöfnuðu með því einvígið 1:1.

„Það skiptir ekki neitt annað máli. Við þurftum að ná í þennan sigur og höfðum mikið fyrir því eins og við vissum að yrði tilfellið. Þetta er aldrei þægileg staða að vera í, það hefði verið mjög erfitt,“ sagði Einar Árni og var ánægður með framfarirnar frá því að liðið tapaði fyrsta leiknum á fimmtudag í Grindavík.

„Mér fannst margt mjög gott hjá okkur í dag og betra en síðast. Í síðasta leik fengum við 99 stig á okkur, sem er það mesta í allan vetur. Við þurfum að herða okkur varnarlega og mér fannst við gera betur í dag. En það eru sóknarfráköst og lausir boltar sem þeir taka of stórt hlutfall af og við þurfum að laga,“ sagði Einar Árni.

Þórsarar byrjuðu leikinn í kvöld mun betur, en þrátt fyrir það fór Tobin Carberry hægt af stað og var til að mynda aðeins með 2 stig eftir fyrsta leikhluta. Hann gaf hins vegar í botn þegar leið á og var stigahæstur með 30 stig.

„Hann hefur oft verið klókur í þessu, var ekki að þvinga neitt fram. Svo fórum við að ráðast á þá í ákveðnum aðgerðum þar sem hann er sterkur og hann gerði það frábærlega. Mér fannst hann leysa sinn leik vel eftir að hafa fengið þriðju villuna og fær ekki þá fjórðu fyrr en á lokasekúndunum,“ sagði Einar Árni.

Hann keyrði mikið til á sama liðinu í kvöld og næsti leikur er á miðvikudag. Mun það koma í bakið á honum þá?

„Nei, þeir eru ekki að skipta neitt meira en við heldur hafa bara sjö menn á gólfinu. Við erum að vinna á átta mönnum í dag, en það er úrslitakeppni og menn geta verið þreyttir í allt sumar ef út í það er farið,“ sagði Einar Árni Jóhannsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert