Ósáttur við Valsmenn – „Forkastanleg vinnubrögð“

Ari Gunnarsson.
Ari Gunnarsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta eru forkastanleg vinnubrögð,“ segir Ari Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik, við mbl.is en hann er ósáttur við hvernig staðið var að því að tilkynna það að honum yrði ekki boðinn nýr samningur sem þjálfara liðsins.

Ara var tilkynnt að hann yrði ekki ráðinn áfram eftir tapleik fyrir Stjörnunni 8. mars síðastliðinn, en þá höfðu leikmenn liðsins vitað það í mun lengri tíma.

„Leikmönnum var sagt frá því í janúar/febrúar að ég yrði ekki ráðinn aftur. Þetta segja leikmenn mér eftir að ég tilkynni þeim að ég yrði ekki ráðinn áfram eftir leikinn við Stjörnuna,“ segir Ari og furðar sig mikið á vinnubrögðunum.

„Þetta sýnir það að stjórnin stóð ekki við bakið á manni. Að fara í leikmennina á þessum tímapunkti og segja við þær að ég verði ekki áfram þjálfari á næsta ári. Ég skil bara ekki hvað þeim gekk til,“ segir Ari, sem einnig skilur ekki af hverju þurfti að tilkynna það formlega 8. mars, þegar enn voru þrír leikir eftir af deildinni.

Aðspurður segir Ari að hann hafi gengið á fund stjórnarinnar og beðið um svör.

„Ég lét óánægju mína í ljós en það var reynt að gera gott úr þessu. Ég gekk bara að þeim og spurði af hverju ég hefði ekki bara verið rekinn þá. Þeir sögðu að það hefði ekki komið til greina, en eitthvað kom alla vega til greina fyrst farið var að grafa svona undan mér,“ segir Ari.

Ari Gunnarsson, þjálfari Vals.
Ari Gunnarsson, þjálfari Vals. mbl.is/Ófeigur

Þessi vinnubrögð eru ekki sæmandi

Ari er uppalinn Valsari og segir að þrátt fyrir þetta muni hann ekki yfirgefa félagið í fússi.

„Nei, alls ekki. Þetta er mitt félag og ég er uppalinn Valsari. Auðvitað hefði ég viljað vera áfram, en þetta eru bara svo forkastanleg vinnubrögð að heyra að þetta. Ég er með samning út maí og það eru leikmenn sem eru í landsliðsverkefnum sem ég vil reyna að halda á tánum fyrir þau verkefni. Ég klára bara mitt og svo sjáum við bara til,“ segir hann um framhaldið.

Hann segir það sérstaklega sárt að uppeldisfélagið hafi komið svona fram.

„Mér finnst þessi vinnubrögð ekki sæmandi og auðvitað er þetta sárt. Þetta er uppeldisfélagið sem maður vill vinna fyrir og ég hef reynt að gera mitt besta. Oft er talað um að körfuboltinn eigi undir högg að sækja frá fótboltanum og handboltanum. Oft skynjar maður það þó að ég vilji ekki meina það. Það þarf að stíga með félagið upp á næsta stig og það verður ekki gert með svona vinnubrögðum,“ segir Ari Gunnarsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert