Lærisveinar Arnars í undanúrslit

Arnar Guðjónsson er einnig aðstoðarþjálfari landsliðsins.
Arnar Guðjónsson er einnig aðstoðarþjálfari landsliðsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lið Svendborg Rabbits, undir stjórn Arnars Guðjónssonar, tryggði sér í dag sæti í undanúrslitaeinvígi um danska meistaratitilinn í körfuknattleik. Liðið vann einvígið við Næstved 3:0 í 8-liða úrslitunum, en þriðji leikurinn í dag vannst á útivelli, 97:91.

Svendborg var með yfirhöndina í leiknum eins og í fyrstu tveimur leikjum einvígisins, en staðan í hálfleik var 51:44 fyrir Svendborg. Næstved gerði þó gott áhlaup í fjórða leikhlutanum, en lærisveinar Arnars héldu út og unnu 97:91.

Axel Kárason spilaði í rúmar 18 mínútur, skoraði 2 stig og tók 5 fráköst hjá Svendborg, og þá skoraði Stefan Bonneau, fyrrverandi leikmaður Njarðvíkur, 16 stig fyrir liðið.

Fyrsti leikurinn í Næstved fór 72:67 fyrir Svendborg fyrir viku og á fimmtudag vann liðið annan leikinn á sínum heimavelli, 85:80. Einvígið fór því samanlagt 3:0 en Næstved hafnaði í fjórða sæti deildarinnar í vetur og Svendborg í fimmta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert