Þór náði í oddaleik

Telma Lind Ásgeirsdóttir, Breiðabliki, er með boltann. Samherji hennar, Auður …
Telma Lind Ásgeirsdóttir, Breiðabliki, er með boltann. Samherji hennar, Auður Íris Ólafsdóttir, fylgist með á meðan Þórskonan Erna Rún Magnúsdóttir berst. mbl.is/Árni Sæberg

Þór frá Akureyri tryggði sér oddaleik í úrslitaeinvíginu um sæti í efstu deild kvenna í körfubolta eftir 70:61 sigur á Breiðabliki í Smáranum í Kópavogi í kvöld. 

Blikakonur byrjuðu leikinn örlítið betur og komust þær í 9:5, gestirnir frá Akureyri jöfnuðu hins vegar í 9:9 skömmu síðar og gaf það tóninn fyrir fyrri hálfleikinn sem var ansi jafn. Liðin skiptust algjörlega á að hafa forskotið það sem eftir lifði hálfleiks.

Breiðablik var með 37:35 forskot í hálfleik í galopnum leik. Þórsarar unnu þriðja leikhluta með þriggja stiga mun og var staðan 50:49 fyrir síðasta leikhlutann, í leik sem var búinn að vera æsispennandi frá byrjun. 

Þór byrjaði 4. leikhlutann af miklum krafti og komst í 59:49 í upphafi hans. Blikar minnkuðu muninn í 59:54 á augabragði, en þá tók aftur við góður kafli Þórskvenna og komust þær í 67:54, fjórum mínútum fyrir leikslok. Þann mun náði Breiðablik aldrei að vinna upp. 

Isabella Ósk Sigurðardóttir skoraði 21 fyrir Breiðablik, en Rut Herner Konráðsdóttir var með 21 fyrir Þór og Unnur Lára Ásgeirsdóttir bætti við 19. Oddaleikurinn fer fram á Akureyri næsta föstudag. 

Breiðablik 61:70 Þór Ak. opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert