Snæfell komið yfir í einvíginu

Jónína Þórdís Karlsdóttir úr Stjörnunni sækir að körfu Snæfells í …
Jónína Þórdís Karlsdóttir úr Stjörnunni sækir að körfu Snæfells í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Eyþór Benediktsson

Snæfell er komið yfir gegn Stjörnunni í undanúrslitaeinvígi liðanna um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik eftir sigur í fyrsta leik liðanna, 93:78, í Stykkishólmi í kvöld.

Snæfell setti tóninn strax í byrjun og var yfir eftir fyrsta leikhluta, 24:14. Snæfell hélt áfram að bæta við forskot sitt þegar leið á og var 12 stigum yfir í hálfleik, 50:38.

Það var svo ekki fyrr en í fjórða hluta að Stjarnan gerði áhlaup, en það kom of seint og Snæfell var þegar búið að byggja upp forskot sem ekki varð haggað. Stjarnan minnkaði muninn í níu stig þegar minnst var, en Snæfell hélt dampi og vann að lokum öruggan sigur, 93:78.

Aaryn Ellenberg fór á kostum hjá Snæfelli, en hún skoraði 42 stig og tók 14 fráköst. Hjá Stjörnunni skoraði Danielle Rodriguez 18 stig og gaf 9 stoðsendingar.

Næsti leikur liðanna fer fram í Garðabænum á laugardag, en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu.

Snæfell 93:78 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert