Kasólétt Hildur stýrði liðinu upp um deild

Blikastúlkur fagna úrvalsdeildarsætinu eftir sigurinn á Akureyri í kvöld.
Blikastúlkur fagna úrvalsdeildarsætinu eftir sigurinn á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó Tryggvason

Hildur Sigurðardóttir, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í körfubolta, er eldri en tvævetur í bransanum. Hún er fimmfaldur Íslandsmeistari, landsliðsleikjahæst og mikill leiðtogi.

Kasólétt leiddi hún lið sitt til sigurs í oddaleik gegn Þór á Akureyri í kvöld. Var leikurinn upp á sæti í úrvalsdeildinni og vann Breiðablik sannfærandi sigur, 56:42.

Fyrsta spurningin sem Hildur fékk var hvort hún væri ekki búin að þjálfa eitthvað áður.

„Þetta er fyrsta meistaraflokksliðið sem ég þjálfa.“

Og þú byrjar svona glimrandi vel.

„Já það má segja það. Ég náði markmiðinu sem ég setti mér í vetur.“

Sástu strax þegar þú fékkst þennan hóp í hendurnar að þú gætir stefnt á toppinn?

„Já og nei í rauninni. Ég þekkti voða lítið til í 1. deildinni en ég sá þó að hún hefur styrkst mikið og það er fullt af hörkugóðum leikmönnum í henni. Ég sá fljótlega að ég væri með hörku lið og um leið og við fórum að spila á móti öðrum liðum þá sá maður styrkinn í liðinu og að við ættum alveg góðan möguleika í vetur.“

Þið haldið Þór í 40 og 42 stigum í leikjunum tveimur hérna á Akureyri. Ertu að leggja svona mikið upp úr varnarleiknum?

„Það er eiginlega þannig að þegar það er mikið undir og mikið stress þá er erfitt að vera að stóla á skot frá reynslulitlum leikmönnum. Þá legg ég meiri áherslu á vörnina, að halda henni gangandi og eyða orkunni þar. Ég einblíndi mjög á varnarleikinn og að stoppa þeirra helstu sóknarmenn. Við náðum ekki varnarleiknum upp í síðasta leik og töpuðum honum. Þá virkuðum við þreyttar. Við fórum vel yfir það sem klikkaði þá og það er alveg greinilegt að við þurfum að halda vörninni til að vinna leiki.“

Þið byrjuðuð þennan leik vel, komust í 13:5 en skoruðuð svo ekki í sjö mínútur. Þú varst róleg allan þann tíma.

„Já, já. Maður veit alveg að Þór er með sterka leikmenn og ég hef spilað með nokkrum þeirra. Þær ætluðu sér þetta alveg jafn mikið og við. Ég bjóst alltaf við góðum skorpum hjá þeim. Þá er bara að halda rónni og hvetja sitt lið áfram.“

Nú þegar þú ert komin með liðið í úrvalsdeildina ætlarðu ekki að þjálfa það áfram?

„Jú, ég á að eiga núna í lok júní og svo fer bara allt á fullt hjá liðinu í júlí og ágúst. Það ætti að ganga upp“

Þetta er mjög vel skipulagt hjá þér.

„Já ég er mjög skipulögð“ sagði hin goðsagnakennda Hildur að lokum og hló dátt. 

Hildur Sigurðardóttir þjálfari Breiðabliks ræðir málin við Kristin Óskarsson dómara …
Hildur Sigurðardóttir þjálfari Breiðabliks ræðir málin við Kristin Óskarsson dómara í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert