KKÍ mun kæra ósæmileg ummæli

KR og Keflavík mætast í þriðja sinn í kvöld og …
KR og Keflavík mætast í þriðja sinn í kvöld og hér eigast við Amin Stevens og Pavel Ermolinskij. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands hefur gripið til aðgerða vegna ummæla sem fallið hafa í garð dómara eftir leiki í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitla karla og kvenna á undanförnum dögum.

KKÍ sendi í dag bréf til formanna félaga í Dominos-deildum karla og kvenna og 1. deild karla, mótanefndar og dómaranefndar sambandsins.

Þar kemur fram að öll ummæli sem hér eftir verði látin falla og geti skaðað ímynd íþróttarinnar verði frá og með deginum í dag kærð af stjórn KKÍ til aga- og úrskurðarnefndar í samræmi við reglugerð um aga- og úrskurðarmál.

Í bréfinu segir:

Í ljósi ummæla sem leikmenn og þjálfarar hafa látið falla að undanförnu í fjölmiðlum sem og samfélagsmiðlum um dómgæslu er ljóst að þau ummæli eru að skaða ímynd íþróttarinnar okkar.  

Það virðist vera orðin lenska að þegar lið tapar leik þá er það alltaf dómurum leiksins að kenna og við það getum við sem förum fyrir körfuknattleikshreyfingunni ekki unað lengur.

Hingað til hefur verið litið á ákveðin ummæli sem mistök í hita leiksins og því hafa stjórn og starfsmenn KKÍ ekki viljað senda inn kæru þar sem við vitum að um miklar tilfinningar eru að ræða.

Í úrslitakeppnum þessa tímabils virðist eins og leikmenn og þjálfarar séu vísvitandi að tala niður störf dómara og þá framkvæmdaraðila leiks sem er KKÍ. Það virðist vera að þegar félag tapar leik þessa dagana að það sé allt  dómurum að kenna sem afvega fer í hverjum leik. Auðvitað geta dómarar gert einhver mistök eins og aðrir sem að leiknum koma hverju sinni.

Umræðan undanfarna daga er til þess fallin  að gera lítið úr íslenskum körfubolta og skaða ímynd okkar íþróttar. Þetta er á ábyrgð okkar allra sem að íþróttinni koma og við verðum að gera betur. Nú er lag að breyta þessu og tala upp íþróttina okkar en ekki niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert