„Tel okkur vera töluvert betri“

Valsmenn fagna sigrinum í kvöld.
Valsmenn fagna sigrinum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ágúst Björgvinsson, þjálfari karlaliðs Vals í körfuknattleik, gat andað léttar í kvöld eftir að ljóst varð að Valur yrði í efstu deild næsta vetur. Þetta varð ljóst eftir yfirburðasigur Vals á Hamri á Hlíðarenda í oddaleik í kvöld 109:62.

Valsmenn byrjuðu leikinn með látum og skoruðu fyrstu níu stigin. Þeir lögðu grunninn að sigrinum strax í fyrsta leikhluta en að honum loknum var staðan 32:9. „Ég var einhvern tíma búinn að fullyrða að við værum besta liðið. Við vorum ósáttir við að sýna ekki betri leik en við höfum verið að gera. Þessi úrslit eru ekki alveg getumunurinn á liðunum en ég tel okkur samt vera töluvert betri en Hamar,“ sagði Ágúst sem raunar er fyrrverandi þjálfari Hamars en síðan eru liðin nokkur ár. 

24 stigum munaði á liðunum að loknum fyrri hálfleik og Ágúst sagðist hafa róast þegar þrír leikhlutar voru að baki. „Ég var alveg viss um að bilið væri of mikið fyrir Hamar að brúa ef við myndum vinna þriðja leikhlutann og þá myndum við klára dæmið.“

Oddur Ólafsson t.h. reynir að verjast Illuga Auðunssyni.
Oddur Ólafsson t.h. reynir að verjast Illuga Auðunssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Oddur Ólafsson einn af lykilmönnum Hamars sagði Hvergerðinga hafa vantað orkuna sem Valsmenn höfðu í kvöld. „Við vorum greinilega ekki nógu vel stemmdir og höfðum ekki sömu orku og Valsararnir sérstaklega í byrjun leiks og því fór sem fór,“ sagði Oddur og hann telur ekki að spennustigið hafi verið of hátt í oddaleiknum. 

„Nei nei. Spennustigið var einnig hátt í síðasta leik í Hveragerði og þetta eru allt úrslitaleikir í úrslitakeppninni. Það má vel vera að reynsluleysi hafi orðið okkur að falli í síðasta leik en við ætlum ekki að skýla okkur á bak við það. Við náðum ekki að klára dæmið og ég óska Val til hamingju með að fara upp um deild,“ sagði Oddur en Hamar var níu stigum yfir í síðasta leikhlutanum í fjórða leiknum í Hveragerði og hefði með sigri þar komist upp í úrvalsdeild. Valsmenn lönduðu hins vegar sigri og knúðu fram oddaleikinn. 

Ágúst Sigurður Björgvinsson
Ágúst Sigurður Björgvinsson mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert