Utah og San Antonio náðu forystu

Joe Johnson skoraði sigurkörfu Utah Jazz gegn Jamal Crawford og …
Joe Johnson skoraði sigurkörfu Utah Jazz gegn Jamal Crawford og félögum hans hjá Los Angeles Clippers í nótt. AFP

San Antonio Spurs og Utah Jazz höfðu betur í fyrstu umferð í átta liða úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta karla í nótt. San Antonio Spurs vann öruggan 111:82-sigur gegn Memphis Grizzlies og Utah Jazz fór með nauman 97:95-sigur af hólmi á móti Los Angeles Clipppers.

Kawhi Leonard fór á kostum í liði San Antonio Spurs og skoraði 32 stig. LaMarcus Aldridge skoraði síðan 20 stig og Tony Parker kom næstur með 18 stig. Marc Gasol var atkvæðamestur í liði Memphis Grizzlies með 32 stig.

Tony Allen var fjarri góðu gamni hjá Memphis Grizzlies vegna meiðsla og Leonard nýtti sér það skarð sem fjarvera Allen skildi eftir sig í varnarleik Memphiz Grizzlies. Leonard var lykillinn að því að San Antonio komst yfir í baráttu liðanna um sæti í undanúrslitum.

Joe Johnson tryggði Utah Jazz sigurinn gegn Los Angeles Clippers með flautukörfu. Johnson skoraði 21 stig í leiknum, en sigurkarfa hans kom eftir gott gegnumbrot. Blake Griffin var stigahæstur í liði Los Angeles Clippers með 26 stig.

Utah Jazz varð fyrir áfalli þegar einungis 17 sekúndur voru liðnar af leiknum, en miðherjinn Rudy Gobert þurfti þá að yfirgefa völlinn vegna meiðsla á hné og hann spilaði ekki meira í leiknum. Það kom hins vegar ekki að sök og Utah Jazz náði forystu í einvígi liðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert