Stórsigur KR gegn Grindavík

KR-ingurinn Sigurður Þorvaldsson reynir að stöðva Lewis Clinch í liði …
KR-ingurinn Sigurður Þorvaldsson reynir að stöðva Lewis Clinch í liði Grindavíkur í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslands-og bikarmeistarar KR unnu stórsigur á Grindvíkingum 98:65 í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld. Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari.

Leikurinn var jafn til að byrja með og Grindavík var raunar yfir eftir fyrsta leikhluta, 23:20. En KR náði frumkvæðinu í öðrum leikhluta og hafði gott forskot að loknum fyrri hálfleik, 48:35. KR-ingar juku við forskotið í öðrum leikhluta og þá var ljóst í hvað stefndi. 

KR varð deildarmeistari í vetur og vann Keflavík 3:1 í undanúrslitum. Grindavík hafnaði í 4. sæti og vann Stjörnuna 3:0 í undanúrslitum. Næsti leikur verður í Grindavík á föstudagskvöldið. 

Hittni KR var mjög góð innan teigs eða 65% og 33% utan þriggja stiga línunnar. Grindvíkingar, sem voru sjóðandi heitir gegn Stjörnunni, hittu samtals 28% utan þriggja stiga línunnar og aðeins 28% innan teigs. Grindvíkingar stóðu sig vel í sóknarfráköstunum og tóku 17 slík en það dugði engan veginn til. KR tók 11 sóknarfráköst til samanburðar. 

Stigaskorun dreifðist mjög vel hjá KR en Philip Alawoya var stigahæstur með 22 stig. Brynjar Þór Björnsson skoraði 16 stig en hann lét verulega að sér kveða í þriðja leikhlutanum. Kristófer Acox skoraði 15 stig, tók 7 fráköst og varði 3 skot. 

Dagur Kár Jónsson var stigahæstur hjá Grindavík með 17 stig en næstur kom Lewis Clinch með 15 stig. Hann þarf að skora meira ef Grindavík á að eiga möguleika gegn þessu öfluga liði KR. Clinch á talsvert inni miðað við það sem hann hefur sýnt í vetur. Þorsteinn Finnbogason kom af bekknum hjá Grindavík og skilaði 13 stigum. Ómar Örn Sævarsson tók 10 fráköst en hann fékk 3 villur strax í fyrsta leikhluta og þurfti því að kæla sig meira en gengur og gerist. 

KR 98:65 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert