Tók tíma að hrista páskalærin af sér

Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. mbl.is/Golli

„Þetta var ágætlega þægilegur sigur. Það var smá ströggl á okkur í fyrri hálfleik en þegar leið á leikinn komumst við í gang,“ sagði Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, í samtali við mbl.is eftir 98:65-sigur liðsins á Grindavík í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik.

„Bæði lið voru að koma úr löngu hléi og það getur verið svolítið þungt í byrjun, að ná páskalærunum úr löppunum. Mér fannst við koma sterkir út í öðrum leikhluta og þá fór vélin að tikka og það voru allir að skila sínu,“ sagði Brynjar en gestirnir voru þremur stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta. KR-ingar komu sterkir til leiks í öðrum leikhluta og litu aldrei um öxl eftir það.

„Okkur fór að líða vel og þegar okkur líður vel erum við ansi góðir og þá er erfitt að eiga við okkur.

Gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið

Brynjar þvertók fyrir að munurinn á liðunum væru 33 stig og sagðist búast við Grindvíkingum brjáluðum í næsta leik. „Þeir munu klárlega svara okkur með einhverju og við þurfum að vera klárir.

Hann benti á að KR, sem hefur orðið Íslandsmeistari undanfarin þrjú ár, hefði unnið fyrsta leik úrslitaeinvígis stórt í öll skiptin. „Þetta gefur alla vega góð fyrirheit fyrir framhaldið,“ sagði Brynjar og bætti við að hann vildi taka á móti sjálfum bikarnum á heimavelli en það gerðist síðast árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert