Stórleikur Westbrook dugði ekki til

Nene Hilario, leikmaður Houston, sækir að körfu Oklahoma.
Nene Hilario, leikmaður Houston, sækir að körfu Oklahoma. AFP

Houston Rockets, Washington Wizards og Golden State Warriors eru öll komin í 2:0 í einvígjum sínum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik.

Golden State vann öruggan sigur á Portland, 110:81, þar sem varnarleikur Golden State gerði útslagið. Kevin Durant lék ekki með Golden State vegna meiðsla en það kom ekki að sök. Stephen Curry skoraði 19 stig fyrir Golden State og Klay Thompson var með 16. Maurice Harkless var stigahæstur í liði Portland með 15 stig.

Houston hafði betur gegn Oklahoma City Thunder, 115:111, þar sem sem Russell Westbrook átti stórleik fyrir Oklahoma. Westbrook var með þrefalda tvennu en hann skoraði 51 stig, gaf 13 stoðsendingar og tók 10 fráköst en þreytan sagði til sín hjá honum í fjórða leikhlutanum og hitti hann þá ekki vel úr skotum sínum. James Harden var atkvæðamestur í liði Houston með 35 stig og 8 stoðsendingar en hann hitti úr öllum 18 vítaskotum sínum í leiknum.

Washington hrósaði sigri gegn Atlanta þar sem Bradley Beal skoraði 16 af 31 stigi sínu í fjórða leikhlutanum.

Úrslitin í nótt:

Austurdeild:
Washington - Atlanta 109:101 (2:0)

Vesturdeild:
Houston - Oklahoma 115:111 (2:0)
Golden State - Portland 110:81 (2:0)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert