Alawoya tryggði KR dramatískan sigur

Ólafur Ólafsson stekkur upp að körfu KR í kvöld.
Ólafur Ólafsson stekkur upp að körfu KR í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Þriggja stiga skot Philip Alawoya þegar aðeins fimm sekúndur lifðu leiks dugði KR til að vinna sigur á Grindavík í Mustad-höllinni í kvöld, 89:88, í öðrum leik úrslitarimmunnar á Íslandmóti karla í körfubolta. KR er því 2:0 yfir í einvíginu og getur orðið Íslandsmeistari fjórða árið í röð á mánudag.

KR vann fyrsta leikinn á heimavelli, 98:65. Þriðji leikur liðanna verður í DHL-höllinni á mánudagskvöld kl. 19.15.

Grindvíkingar gengu illir og svekktir af velli í leikslok enda voru þeir yfir mestallan leikinn og náðu meðal annars tíu stiga forskoti, 79:69, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Þá skoraði Jón Arnór Stefánsson átta sig á skömmum tíma, og Kristófer Acox minnkaði muninn í 81:79 eftir að Alawoya stal boltanum. 

Grindavík tók aftur við sér og náði sex stiga forskoti, 88:82, þegar Dagur Kár Jónsson skoraði eftir að Ingvi Þór Guðmundsson varði skot Jóns. Kristófer skoraði hins vegar tvær körfur í röð og minnkaði muninn í 88:86 þegar 34 sekúndur voru eftir. Clinch, sem hafði átt algjöran stórleik fram að því, átti þá misheppnaða sendingu og KR-ingar þutu í sókn. Boltinn barst á Alawoya sem hikaði ekki við að taka skotið, utan þriggja stiga línunnar, og ofan í fór boltinn eftir dans á hringnum.

Grindavík hafði fimm sekúndur í lokasókn sína, eftir leikhlé, en tókst ekki að búa sér til gott færi heldur reyndi Clinch erfitt þriggja stiga skot sem geigaði.

Clinch skoraði alls 33 stig fyrir heimamenn og Ólafur Ólafsson kom næstur með 21 stig og 12 fráköst. Hjá KR var Jón Arnór stigahæstur með 24 stig og Alawoya skoraði 14 auk þess að taka 10 fráköst. Kristófer skoraði 9 stig og tók 13 fráköst.

Gangur leiksins: 6:2, 18:4, 20:12, 21:21, 28:26, 32:31, 39:33, 45:42, 51:44, 55:52, 59:61, 65:65, 74:67, 79:72, 86:79, 88:82, 88:89.

Grindavík: Lewis Clinch Jr. 33/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 21/12 fráköst, Dagur Kár Jónsson 15/5 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 7/6 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4/14 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 4/6 fráköst, Þorleifur Ólafsson 4.

Fráköst: 35 í vörn, 14 í sókn.

KR: Jón Arnór Stefánsson 24/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 18/5 fráköst/6 stoðsendingar, Philip Alawoya 14/10 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Acox 9/13 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 8, Darri Hilmarsson 7/5 fráköst, Pavel Ermolinskij 5, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 4/4 fráköst.

Fráköst: 32 í vörn, 13 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Grindavík 88:89 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert