Það lyftir enginn bikar á okkar heimavelli

Berglind Gunnarsdóttir í leik með Snæfelli.
Berglind Gunnarsdóttir í leik með Snæfelli. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Berglind Gunnarsdóttir var með íspoka á enninu þegar mbl.is greip hana tali eftir að Snæfell hafði unnið Keflavík, 68:60, í þriðja einvígisleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik í Stykkishólmi í kvöld. Snæfell kom þar í veg fyrir að Keflavík lyfti bikarnum í kvöld.

Berglind varð fyrir vænu höggi á höfuðið í fjórða leikhluta og virtist hafa vankast þegar hún var leidd af velli. Hún segist þó stálslegin þó hún muni þurfa að halda íspokanum á enninu eitthvað lengur.

„Það er ekkert að mér. Þetta var ansi fínt högg en lítur oft verr út en það er,  þetta er bara úrslitakeppni og barátta. Maður tekur eitt svona gott högg en sigurinn líka og það skiptir öllu,“ sagði Berglind áður en talið barst frekar að hinum mikilvæga sigri.

„Lífsnauðsynlegur sigur og ótrúlega gott að koma hingað heim og vinna. Mér finnst við ekki hafa sýnt okkar rétta andlit í þessari seríu þar til í dag,“ sagði Berglind. Það stóð svo ekki á svari þegar blaðamaður sagði Berglindi skiljanlega ekki vilja hafa horft á eftir bikarnum á loft hjá Keflavík í kvöld.

„Það er enginn að fara að lyfta bikar á okkar heimavelli. Það er ekki séns. Við komum með það hugarfar í þennan leik en mér fannst þetta vera fyrsti leikurinn í seríunni sem Snæfellsliðið sýnir hvað það getur. En það er bara flott, þá erum við bara byrjaðar,“ sagði Berglind.

Snæfell var með 13 stiga forskot í hálfleik en skoraði svo bara sjö stig í öllum þriðja leikhluta sem hleypti spennu í leikinn.

„Mér fannst við heldur slaka á á tímabili og okkur fannst við vera komnar í heldur þægilega stöðu. En þetta er mjög gott Keflavíkur-lið og það má ekkert slaka á. En þetta er bara einn sigur og það er fullt eftir,“ sagði Berglind Gunnarsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert