Miðar á oddaleikinn í forsölu á netinu

Ómar Örn Sævarsson og Brynjar Þór Björnsson.
Ómar Örn Sævarsson og Brynjar Þór Björnsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsala aðgöngumiða á hreinan úrslitaleik KR og Grindavíkur um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik á morgun fer fram á netinu. Á heimasíðu KR: kr.is/midasala getur fólk tryggt sér miða en ekki er búist við öðru en að uppselt verði á leikinn.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 annað kvöld en upphitun hefst snemma því KR-ingar segja á heimasíðu sinni að þeir muni byrja að grilla hamborgara klukkan 16. Miðasalan á staðnum hefst klukkan 15.

Staðan í úrslitarimmu liðanna er 2:2 og er því um oddaleik að ræða. KR á heimaleikjaréttinn þar sem liðið hafnaði í efsta sæti í deildakeppninni í vetur. Grindavík hafnaði í 4. sæti í deildinni. KR vann fyrstu tvo leiki liðanna í Reykjavík og Grindavík 98:65 og 89:88. Grindavík svaraði fyrir sig með tveimur sigrum í Reykjavík og Grindavík, 91:86 og 79:66. Ljóst er að Íslandsbikarinn fer á loft í DHL-höllinni annað kvöld, hvernig sem fer.

KR og Grindavík mættust einnig í oddaleik í Frostaskjólinu árið 2009. Sú rimma er umtöluð en liðin voru geysilega vel mönnuð. Jón Arnór Stefánsson, Jakob Sigurðarson og Helgi Már Magnússon voru til að mynda allir í KR-liðinu og Grindavík var með Nick Bradford, Brenton Birmingham og Helga Jónas Guðfinnsson svo einhverjir séu nefndir.

Eins og nú var áhuginn þá geysilega mikill og samkvæmt Morgunblaðinu hinn 14. apríl 2009 voru áhorfendur um 2.200 á leiknum. Þá var húsið troðfullt og ósennilegt að það taki mikið fleiri en Böðvar Guðjónsson, stjórnarmaður hjá KR, tjáði Morgunblaðinu á fimmtudaginn að allt yrði gert til að koma sem flestum fyrir. 

Jón Arnór Stefánsson og Lewis Clinch
Jón Arnór Stefánsson og Lewis Clinch mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert