Ágætir möguleikar

Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland mætir Finnlandi og Tékklandi í undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfubolta sem fram fer í Kína árið 2019.

Fjórða lið riðilsins mun svo koma í ljós í ágúst, en þá fer fram umspil um síðustu sætin í undankeppninni.

Alls eru átta riðlar í undankeppninni og fjórar þjóðir í hverjum riðli. Þrjár þjóðir voru dregnar í hvern riðil á dögunum og mun fjórða þjóðin bætast við hvern riðil í ágúst. Þrjú efstu liðin í hverjum riðli halda áfram og keppa um laus sæti í lokakeppni HM.

„Riðillinn er sterkur en ég held að það séu ágætis möguleikar í stöðunni fyrir okkur gegn þessum andstæðingum,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, þegar Morgunblaðið spurði hann út í andstæðinga Íslands.

„Leikstíll Finna er sá sami og okkar með hreyfanlega stóra menn sem geta skotið. Þeir eru komnir langt í að þróa sinn leikstíl. Þeir hafa verið fremstir Norðurlandaþjóðanna og deildakeppnin þeirra er nokkuð sterk. Al'lonzo Coleman sem var í Stjörnunni er í einu besta liði Finnlands og Jeb Ivey hefur lengi spilað í Finnlandi. Finnar eru góðir og hafa skilað leikmönnum í sterkar deildir. Ég hef trú á því að við getum tekið þá þótt þeir eigi að vera sigurstranglegri,“ sagði Finnur en athyglisvert er að Ísland mætir nú Finnum bæði á EM og í undankeppni HM. Finnland er sem kunnugt er gestgjafi riðilsins sem Ísland leikur í í Helsinki í lokakeppni síðsumars.

Ísland hefur ekki mætt Tékklandi lengi og Finnur segist ekki vera byrjaður að kynna sér lið Tékka. „Þeir eru með þekkta leikmenn eins og Jan Veselý sem leikið hefur með stórliðum eins og Fenerbache en einnig með Washington og Denver í NBA. Hann er hrikalega góður og þeir eru með góða bakverði í byrjunarliðinu,“ sagði Finnur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert