Hildur Björg til Breiðabliks

Hildur handsalar samninginn við Sigríði H. Kristjánsdóttur, formann körfuknattleiksdeildar Breiðabliks.
Hildur handsalar samninginn við Sigríði H. Kristjánsdóttur, formann körfuknattleiksdeildar Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, hefur ákveðið að ganga til liðs við Breiðablik og mun því leika með liðinu í Dominos-deildinni næsta vetur.

Í fréttatilkynningu frá Breiðabliki segir:

„Síðustu árin hefur Hildur Björg leikið með liði Háskólans í Texas í Rio Grande, við góðan orðstír. Áður en hún hélt utan spilaði hún með Snæfelli og varð Íslandsmeistari með liðinu vorið 2014. Síðasta tímabilið sem Hildur Björg spilaði hérlendis var hún með 15 stig og 10 fráköst að meðaltali í leik. Hildur Björg hefur leikið 12 A-landsleiki og mun leika með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum sem hefjast á mánudaginn.

Hildur Sigurðardóttir, þjálfari Breiðabliks, kveðst afar ánægð með að fá Hildi Björgu til liðs við félagið.

„Hildur Björg er ein allra besta körfuknattleikskona landsins og mun án efa gera góða hluti í vetur. Hildur er vinnusöm, metnaðarfull og góður liðsfélagi og passar því mjög vel inn í þann hóp sem þegar er til staðar hjá Breiðabliki. Ég er virkilega ánægð með að fá að starfa með henni næsta vetur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert