Dæmið er að ganga upp

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR-inga.
Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR-inga. mbl.is/Árni Sæberg

Íslands- og bikarmeistarar karla í körfuknattleik síðustu tveggja ára, KR-ingar, verða með í Evrópukeppni félagsliða næsta vetur. Stjórn körfuknattleiksdeildar KR tilkynnti þessa ákvörðun sína í gær.

Mun KR taka þátt í forkeppni FIBA Europe Cup í haust og verður leikið heima og að heiman dagana 27. september og 4. október. Dregið verður hinn 4. júlí næstkomandi. Íslensk félagslið hafa ekki tekið þátt í Evrópukeppni síðan árið 2008 en þá léku KR-ingar á móti tyrkneska liðinu Banvit.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, fagnaði þessari ákvörðun þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær en nefndi jafnframt að þátttaka í Evrópukeppni hefði verið rædd innan félagsins á undanförnum árum.

„Þetta er gríðarlega ánægjulegt. Ég tel það vera rökrétt skref fyrir bæði félagið og íslenskan körfubolta að taka nú þátt í Evrópukeppni fyrir félagslið. Við höfum stefnt að þessu í nokkurn tíma en það hefur ekki gengið upp síðustu árin. Við skoðuðum þetta einnig vel í fyrra en þá þótti þátttakan ekki gerleg á þeim tímapunkti. Að vera með er meira en að segja það því þessu fylgja skuldbindingar bæði varðandi tryggingar og kostnaðinn við þátttökuna.

Landslagið er ekki eins og í fótboltanum þar sem liðin fá greiðslur fyrir að taka þátt. Það gerist ekki fyrr en á lokastigum keppninnar sem gerir þátttökuna erfiðari eins og við þekkjum úr handboltanum. Nú er dæmið að ganga upp og allir klárir í slaginn, stjórnarmenn sem og aðrir í félaginu,“ sagði Finnur en við þetta má bæta að fyrir tveimur árum skoðuðu KR-ingar af alvöru að vera með en þá var það ekki hægt vegna breytinga sem voru að ganga í gegn varðandi Evrópukeppnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert